miðvikudagur 2. september 2009

Málþing um skipulag og stjórnun strandsvæða hefst á morgun

Háskólasetur Vestfjarða stendur fyrir málþingi um skipulag og stjórnun strandsvæða á morgun fimmtudag og á föstudag. Málþingið er haldið í tengslum við upphaf skólaárs í meistaranámi í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetrið. Einnig er það liður í hugmyndum sem Fjórðungssamband Vestfirðinga, Teiknistofan Eik og Háskólasetrið hafa sett fram um gerð nýtingaráætlunar fyrir strandsvæði Vestfjarða.

Alls verða haldin tólf erindi á málþinginu af innlendum og erlendum sérfræðingum, auk hópavinnu og umræðna. Nánari upplýsingar um erindin og tímasetningar þeirra má nálgast á vefsíðu málþingsins.

Málþingið hefst kl. 10 á fimmtudagsmorgun og verður því slitið kl. 16.30 á föstudag, það er opið almenningi og hvetjum við alla áhugasama til að mæta.