þriðjudagur 29. nóvember 2011

Málþing um hagræn áhrif menntunar á jaðarsvæðum: Fyrirlesarar lentu

Það hefur hangið á bláþræði að veðrið setti strik í reikninginn varðandi málþingið um hagræn og félagsleg áhrif menntunar á jaðarsvæði, þar sem Skotar og Íslendingar bera saman bækur sínar, en svo er ekki raunin. Fyrirlesarar lenda einn af öðrum og rétt núna komu úr flugvélinni Robert E Wright, prófessor við Strathclyde University og Nicole Bourque dósent við University of Glasgow. 

Dagskrá málþings

Robert E Wright er prófessor í hagfræði við Strathclyde háskólann í Skotlandi. Hann var áður prófessor og forstöðumaður rannsókna við Stirling háskóla og vann við háskólana í Glasgow, Lundúnum og Ottawa. Hann er ráðgjafi í manntalsfræðum á hagstofu Bretlands og hefur verið í nefnd á vegum skotska þingsins um lífsgæði efri ára (the Scottish Parliament's Positive Ageing Project). 
Hans fyrirlestur er um búferlaflutninga nemenda milli jaðarsvæða og stórborga og afleiðingar flutninganna fyrir viðkomandi svæði.

Dr. Nicole Bourque er dósent í mannfræði við háskólann í Glasgow og hefur í sínum rannsóknum fengist við málefni, þar sem mannfræði og trúarbragðafræði mætast. Innflytjendamál og þá sérstaklega innflytjendamál á jaðarsvæðum tengjast þessu. Erindi Nicole Bourque nefnist Does Religious Education Work?

Með þeim á myndinni er Kristinn Hermannsson, sem kemur þessum kollegum sínum hingað vestur.  Kristinn Hermannsson er Ísfirðingur sem er í doktorsnámi í byggðahagfræði við Strathclyde Háskólann í Skotlandi. Hann þekkir byggðaþróun Vestfjarða vel og tengdist til að mynda fyrir ári síðan úttekt, sem var gerð á kostnaði sparnaðaraðgerða á Fjórðungssjúkrahúsinu, sem leiddi í ljós að enginn sparnaður væri af. Kristinn mun tala um hagræn áhrif framfærslu nemenda á jaðarsvæði sem og á stórborgir. 

Robert E Wright, Nicole Bourque og Kristinn Hermannson í Háskólasetri
Robert E Wright, Nicole Bourque og Kristinn Hermannson í Háskólasetri