Lokaverkefni fyrrum frumgreinanema vekur athygli
Bestu meðmæli menntastofnanna er sá árangur sem nemendur þeirra ná að námi loknu. Það er því alltaf ánægulegt fyrir Háskólasetrið að geta sagt frá góðum árangri fyrrum nemenda hér á vefsíðunni.
Á fréttasíðunni Vísi var í gær rætt við Sigurbjörgu Benediktsdóttur, viðskiptafræðing, fyrrum nemenda í frumgreinanámi sem Háskólasetur Vestfjarða bauð upp á í janúar 2008. Í viðtalinu á Vísi segir Sigurbjörg frá lokaverkefni sínu sem snerist um möguleika þess að Ísland verði seðlalaust land. Sigurbjörg bendir á að tæknilega sé þetta vel framkvæmanlegt og að seðlalaust viðskiptaumhverfi á Íslandi kæmi sér vel m.a. vegna þess að slíkt myndi sporna gríðarlega gegn svartri atvinnustarfsemi.
Sem fyrr segir var Sigurbjörg í hópi þeirra nemenda sem hófu nám í staðbundnu frumgreinanámi við Háskólasetur Vestfjarða í janúar 2008 sem boðið var upp á í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Sigurbjörg var einn þeirra þriggja nemenda sem lauk frumgreinanáminu tveimur árum síðar og í kjölfarið hóf hún nám í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri.
Sigubjörg hóf nýverið stöf hjá endurskoðendaskrifstofu í Keflavík þar sem hún hefur búið frá 2012. Hún lauk náminu í viðskiptafræðinni um síðustu áramót en útskrifast formlega í vor. Aðspurð segir Sigurbjörg reynsluna af frumgreinanáminu við Háskólasetrið hafa verið góða. „Mín reynsla af frumgreinanáminu var hreint út sagt frábær, frábærir kennarar í alla staði, hver og einn af þeim.“ Hún tekur einnig fram að vel hafi verið haldið utan um hópinn hjá Háskólasetrinu. „Það var líka mjög skemmtilegt að vera hluti af fyrsta hópnum sem kláraði frumgreinanámið á Ísafirði og þetta var mjög góður undirbúningur fyrir áframhaldandi nám“, segir Sigurbjörg og bætir því við vel komi til greina að hún bæti enn meira námi við sig í framtíðinni. „Þá gæti nám í endurskoðun vel orðið fyrir valinu.“