miðvikudagur 4. febrúar 2009

Loftlagsbreytingar og stefnumótun

Við Háskólasetur Vestfjarða stendur nú yfir námskeið um loftslagsbreytingar og stefnumótun (Climate change and policy) í meistaranámi í haf- og strandsvæðastjórnun. Kennari námskeiðsins er Dr. Norm R. Catto, prófessor í landafræði við Memorial háskólann í St. John´s á Nýfundnalandi. Störf Dr. Catto hafa einkum beinst að mögulegum mótvægisaðgerðum gegn neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga. Í því sambandi hefur hann skoðað sérstaklega breytingar á veðurfari og landbrot við austurströnd og heimskautasvæði Kanada. Dr Catto hefur nýtt sér þekkingu úr þessum rannsóknum til að aðstoða samfélög við að bregðast við flóðbylgjum, flóðum, landbroti og öðrum hættum.

Dr. Catto var meðlimur í kanadískri matsnefnd um áhrif loftslagsbreytinga á strandsvæði og viðeigandi aðlögunaraðgerðir. Einnig lauk dr. Catto nýverið við kanadíska útgáfu kennslubókarinnar Natural Hazards and Disasters sem er ætluð fyrir háskólakennslu. Meðal helstu rannsóknarefna Dr. Catto eru náttúruhamfarir, landbrot, landslagsbreytingar vegna veðurs og veðurfarsbreytingar. Sögulegar heimildir, samtímarannsóknir og framtíðarspár eru í því tilliti notaðar til að álykta um búsetuskilyrði og landnýtingu.

Ásamt nemendum sínum hefur hann stundað rannsóknir á heimskautasvæði Kanada (Sachs Harbour, Gjoa Haven, Tuktoyaktuk), í Serbíu, Suður-Kóreu, Þýskalandi, Argentínu, Eistlandi, auk fjölmargra staða í Kanada.

Frekari upplýsingar um námskeiðið Climate changes and policy má nálgast á vefsíðu þess hér.

Dr. Norm R. Catto
Dr. Norm R. Catto