fimmtudagur 21. febrúar 2008

Líkanreikningar á Snjóflóðasetri

Snjóflóðasetur Veðurstofu Íslands á Ísafirði hefur um tveggja ára skeið haft yfir að ráða fullkomnu snjóflóðalíkani sem kallast SAMOS. Nokkur vinna hefur farið í að kvarða og prófa líkanið fyrir íslenskar aðstæðar en það er nú komið í fulla notkun. Líkanið gagnast við úrlausn ólíkra verkefna og í Vísindaporti mun Eiríkur Gíslason verkfræðingur, sem hefur umsjón með líkanreikningum á Snjóflóðasetrinu, fjalla um snjóflóðalíkön og sýna nokkur dæmi um notkun þeirra. Hann mun meðal annars lýsa meistaraverkefni sínu við Verkfræðideild Háskóla Íslands þar sem viðfangsefnið er hermun lítilla og meðalstórra snjóflóða í tengslum við snjóflóðahættumat á íslenskum skíðasvæðum sem nú er unnið að á Snjóflóðasetrinu.

Vísindaportið er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum þar sem einhver segir í stuttu máli, 20-30 mínútur, frá sínum núverandi eða eldri rannsóknum - og svo er orðið laust. Fyrirlesturinn fer fram í kaffisal Háskólasetursins og eru allir velkomnir.


Myndin sýnir niðurstöður úr snjóflóðalíkaninu SAMOS þar sem reynt er að herma snjóflóð sem féll úr Hraungili í Hnífsdal í janúar 2005.
Myndin sýnir niðurstöður úr snjóflóðalíkaninu SAMOS þar sem reynt er að herma snjóflóð sem féll úr Hraungili í Hnífsdal í janúar 2005.