Lífið á Ísafirði laðar nemendur að
Strax að lokinni morgunkennslu á fyrsta kennsludegi var gengið um bæinn með nemendur. Sem betur fer liggja allir staðir sem nemendur þurfa að þekkja eins og perlur á hálsfesti frá Háskólasetrinu: Höfnin til að komast í siglingar um helgar, kaffihúsin, vínbúðin, bakaríin, matsölustaðir, kirkjan og bókasafnið. Í leiðinni var einnig bent á sögufræga staði svo sem Neðsta kaupstað og Hæsta kaupsta auk þess sem göturnar í gamla bænum voru gengnar.
Hið svokallaða „City Walk“ endaði svo í Hömrum sal Tónlistarskólans, þar sem tónlistarkennarinn Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir tók á móti hópnum og leiddi hann í kóræfingu, þar sem sönggleði og framburður íslensku var í forgrunni. Lögin sem hópurinn lærði þennan eftirmiðdag verða væntanlega hummuð af þátttakendum víða um heiminn þegar nemendur snúa aftur til síns heima.