Líffræðilegur breytileiki og myndun nýrra tegunda
Gestur í Vísindaporti vikunnar er Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir forstöðumaður Rannsókna- og fræðaseturs Háskóla Íslands í Bolungarvík.
Myndun og viðhald líffræðilegs fjölbreytileika er ein af grundvallaspurningum þróunarfræðinnar. Rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika skipta þó ekki síður máli í hagnýtari fræðum. Þekking á fyrirliggjandi breytileika er forsenda ábyrgrar nýtingar auðlinda.
Mæling líffræðilegs breytileika getur þó ekki alltaf farið fram með einfaldri mælistiku. Skilningur á þeim ferlum er stuðla að myndun og viðhaldi fjölbreytileika er ekki síður mikilvægur en mæling á núverandi stöðu. Lífverur og vistkerfi eru ekki statísk fyrirbrigði heldur síbreytileg. Því er mikilvægt að huga að kerfinu í heild frekar en mæla einstaka hluta þess.
Líffræðilegur fjölbreytileiki á Íslandi markast af mörgum þáttum, t.d. landfræðilegri legu, staðsetningu og ungum jarðfræðilegum aldri. Í Vísindaporti vikunnar verður fjallað um skilgreiningar á líffræðilegum fjölbreytileika, mælistikur breytileika og myndun nýrra tegunda. Kynnt verða dæmi af íslenskum aðstæðum og íslenskum tegundum með áherslu á hornsíli - meistara norðurhvelsins í fjölbreytileika.
Guðbjörg Ásta var nýlega ráðin forstöðumaður Rannsókna og fræðaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum. Hún er BSc líffræðingur frá Háskóla Íslands og varði PhD ritgerð í dýrafræði við Háskólann í St Andrews, Skotlandi í desember 2004. Rannsóknir hennar hafa einkum snúið að því að skilja tilurð og stuðla að viðhaldi líffræðilegs fjölbreytileika.
Vísindaportið er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum þar sem einhver segir í stuttu máli, 20-30 mínútur, frá sínum núverandi eða eldri rannsóknum - og svo er orðið laust. Fyrirlesturinn fer fram í kaffisal Háskólasetursins og eru allir velkomnir.