miðvikudagur 28. desember 2011

Leiðin að birtingu í ritrýndu vísindatímariti - UPPTAKA

Nýverið, eða fimmtudaginn 8. desember, hélt Mike Phillips fyrirlestur á vegum Háskólaseturs Vestfjarða. Þar deildi hann þekkingu sinni á alþjóðlegum vísindatímaritum og þeim ferlum sem birting ritrýndar greinar lenda í. Nú geta allir nálgast upptöku okkar af fyrirlestrinum.

 

Hlekkur á upptökuna

 

UPPRUNALEG FRÉTT

 

Fimmtudaginn 8. desember, kl. 15:00, mun Mike Phillips, sviðsforseti við Metropolitan University of Swansea, Wales, deila þekkingu sinni á alþjóðlegum vísindatímaritum og þeim ferlum sem birting ritrýndar greinar lenda í. Hann mun m.a. leitast við að útskýra mikilvægi alþjóðlegra birtinga fyrir fræðimenn á öllum sviðum, hvað til þarf til að grein sé birtingarhæf, hverju ritrýnendur taki eftir og hvernig best sé að bera sig að frá skrifum til birtingar. Auk þess mun hann að sjálfsögðu svara spurningum þátttakenda um efnið.

 

Ritaskrá Mike er afar löng og hefur hann hlotið um 100 birtingar á sínum ferli, þar á meðal bækur, bókarkafla, vísindagreinar og skýrslur. Hann er með doktorsgráðu í landmótunarfræðum (geomorphology).

 

Örnámskeiðið er opið öllum meðan pláss leyfir. Ekkert þátttökugjald.

 

Nánari upplýsingar veitir Dagný Arnarsdóttir í síma 450 3048.

 

Mike Phillips kennir nú námskeiðið CMM02 Physical Processes of the Coastal and Marine Environment. Þetta er í þriðja skiptið sem hann heimsækir Vestfirði í þeim tilgangi. Við bjóðum þennan Vestfjarðavin velkominn á nýjan leik.


Mike Phillips
Mike Phillips