föstudagur 6. júlí 2012

„Lærdómsríkt og skemmtilegt að taka erlendan gest inn á heimilið"

Aurora Roth gisti hjá Sólrúnu Geirsdóttur og fjölskyldu. Hér er hún í Ósvör ásamt Einar Geir
Aurora Roth gisti hjá Sólrúnu Geirsdóttur og fjölskyldu. Hér er hún í Ósvör ásamt Einar Geir "litla bróður" sínum.
Nemendahópurinn í ár samanstóð af 18 ungum körlum og konum, flest þeirra um tvítugt. Fjölskyldur á Ísafirði, í Hnífsdal og Bolungarvík skutu yfir þau skjólshúsi og var ýmist um að ræða einstætt fólk, hjón með lítil börn, unglinga eða uppkomin börn, litlar fjölskyldur sem stórar. Gestgjafarnir voru mjög duglegir að sýna gestum sínum hvað svæðið hefur upp á að bjóða. Nemendurnir fengu að fara í skoðunarferðir, sund og fjallgöngur, á söfn og tónleika og margt fleira. Einnig fengu margir að prófa séríslenskan mat, svo sem hrefnukjöt, harðfisk, hákarl og hangikjöt.

 

Bæði gestgjafar og nemendur voru almennt mjög ánægðir með þessa reynslu og mæla með að fólk skoði þennan möguleika. Okkur hjá Háskólasetrinu þykir þetta lofa góðu fyrir næsta ár, en útlit er fyrir að nýr hópur frá SIT muni dvelja við Háskólasetrið og að heimagistingin verði aftur í boði að ári. Ef þetta skyldi vekja áhuga á að taka að sér nema á næsta ári þá má gjarnan hafa samband við verkefnastjóra Pernillu Rein, pernilla(hjá)uwestfjords.is eða í síma 450-3044.

 

Hér að neðan viljum við deila með lesendum nokkrum af þeim skemmtilegu frásögnum sem við höfum fengið frá fjölskyldunum sem tóku þátt.

 

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ísafirði:
„Það hefur verið algerlega magnað að hafa þessar tvær stelpur síðustu tvær vikur. Það kom mér á óvart hversu ótrúlega gaman og lærdómsríkt var að hafa þær á heimilinu og við eigum örugglega eftir að halda sambandi við þær"

 

Elín Þóra Stefánsdóttir, Bolungarvík:
„Tvær yndislegar vikur að baki. Connor passaði vel inn í okkar aðstæður, takk fyrir að velja hann fyrir okkur. Hann naut þess að borða bolvískt lambakjöt og glænýjan fisk. Að vísu ber hann ör á fæti eftir að hafa skorið sig í hylnum í ánni í Skálavík, sex spor og reikning upp á 40.000, en það verður bara til að minna hann á Íslandsdvölina um ókomna tíð."
„Eitt spaugilegt atvik sem fékk mig til að brosa var þegar Connor var að þvo þvott. Hann vildi auðvitað gera það sjálfur og hengja út sem að ég var mjög ánægð með. Ég áttaði mig aftur á móti ekki á því að hann hafði aldrei hengt tau út á snúrur áður og þegar ég fór að kíkja á hann var hann búinn að fylla fjórar snúrur af þvotti þar sem einungis klemman var utan um snúruna og tauið hékk svo neðan í klemmunni. Maður gleymir því stundum að veröldin er ekki allstaðar eins."

 

Gróa Stefánsdóttir, Ísafirði:
„Eitt sem stóð upp úr var þegar Önundur fór með hana upp á Bolafjall 20. júní til að sjá sólstöðurnar þá hafði Önundur sagt „jæja þá gerist það" og hún var sífellt að reyna að endurtaka þessa setningu."

 

Matthildur Helgadóttir Jónudóttir, Ísafirði:
"Það gengur mjög vel heima hjá okkur, Mariel er skemmtileg stelpa og fellur ágætlega inn í okkar fjölskyldu. Við drekkum stundum saman morgunkaffið í grjótinu á bak við Ölduna og í gærkvöldi fór ég með hana og aðra stelpu til í bíltúr út á Arnarnes og til Bolungarvíkur (prófuðum Óshlíðina). Við tölum oftast saman á ensku en prófum þó alltaf íslenskuna inn á milli og ég er alveg undrandi yfir því hve mikið hún kann nú þegar."

Sjá einnig viðtal sem blaðamaður á Bæjarins Besta tók við fjölskyldu Matthildar og þeirra gest, Mariel Simpson „Fjölskyldumyndin sú sama og í New Jersey"

 

Sólrún Geirsdóttir, Bolungarvík:
„Ég og mín fjölskylda þökkum fyrir síðustu tvær vikur. Það er mjög lærdómsríkt og skemmtilegt að taka erlendan gest inn á heimilið. Öll fjölskyldan naut góðs af því. Aurora var afskaplega þægilegur og góður gestur og féll vel að fjölskyldunni. Hún borðaði allt sem henni var boðið upp á, fisk, hangikjöt, harðfisk og sitthvað fleira. Best fannst henni þó lambalærið hjá mömmu, afmælisterturnar og íslenska súkkulaðið sem við gáfum henni á tvítugsafmælinu. Hún spilaði fótbolta við Einar Geir, spilaði og söng með Þórhildi, horfði á íslenska þætti með Halldóru og fræddist um íslenska leikara. Aurora er mikill listamaður og gaf okkur öllum kort og myndir sem hún hafði málað. Við sýndum henni Ósvör, náttúrugripasafnið, melrakkasetrið, Dyndjandi og litum við á Dýrafjarðardögum. Auk þess fór hún í lengri og skemmri gönguferðir, upp á Ufsir og Bolafjall og á Ingjaldssand. Við mælum eindregið með að fólk noti tækifæri eins og þetta til að opna heimili sín fyrir framandi gestum. Takk fyrir okkur."

 

Þröstur Ólafsson, Hnífsdal:
„Ég þakka fyrir þessi ljúfu kynni. Frábær stelpa, sem kryddaði tilveru okkar svo mjög."