miðvikudagur 23. apríl 2014

LÚR - Listahátíð unga fólksins

LÚR eða listahátíðin Lengst Útí Rassgati, er listahátíð ungs fólks sem haldin er á vegum menningarmiðstöðvarinnar Edinborgar og styrkt af Evrópu unga fólksins. Hópur af ungu fólki á Ísafirði, á aldrinum 16 – 25 ára, hefur nú í vetur unnið að skipulagningu hátíðarinnar og mun í þessu síðasta Vísindaporti vetrarins segja okkur frá hátíðinni, skipulagningu hennar og væntingunum sem til hennar eru.

LÚR verður haldin á Ísafirði dagana 12. – 15. júní en áður en hátíðin hefst munu verða starfræktar smiðjur í hinum ýmsu listgreinum. Reyndir listamenn munu koma á svæðið og stýra smiðjunum sem verða dagana 9. – 13. júní. Hátíðin skapar svo vettvang fyrir hina ungu listamenn til að koma list sinni á framfæri. Þátttakendur eru frá þremur Evrópulöndum.

Fulltrúar úr undirbúningshópi LÚR munu kynna hátíðina í Vísindaporti, föstudaginn 25. apríl. Kynningin hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs og er öllum opin.