Kynning á meistaraprófsverkefni: Strandveiðarnar 2009: Markmið, framgangur og fiskveiðistjórnun
Liður í útskrift þeirra nema sem unnið hafa 30 eininga verkefni er opinber kynning á meistaraprófsverkefnunum. Í vikunni munu fimm nemar kynna verkefni sín og verður nánari dagskrá auglýst innan skamms hér á heimasíðu Háskólaseturs. Auk þess fer fram ein meistaraprófsvörn, 60 eininga verkefnis, í byrjun febrúar.
Fyrstur ríður á vaðið Gísli H. Halldórsson, en meistaraprófsverkefni hans ber titilinn Strandveiðarnar 2009: Markmið, framgangur og fiskveiðistjórnun og er til 30 eininga. Leiðbeinandi verkefnisins er Auður H. Ingólfsdóttir og prófdómari Hulda Proppé.
Kynningin er fer fram miðvikudaginn 20. janúar kl. 16:00 í stofu 1-2 í Háskólasetri Vestfjarða Suðurgötu 12 á Ísafirði og er opin almenningi. Auk þess verður hún send út með fjarkennslubúnaði í kjallara Odda, Háskóla Íslands. Kynningin fer fram á íslensku en glærur verða á ensku. Spurningar og svör geta verið hvort sem er á ensku eða íslensku.
Útdráttur
Strandveiðarnar 2009 voru nýtt tilbrigði við fiskveiðistjórnun á Íslandi og var ætlað að rjúfa einokun kvótakerfisins. Þær voru fyrst og fremst tilraun til þess að draga úr samfélagslegu ranglæti, þó umræða um vistvænar og sjálfbærar veiðar hafi einnig verið tvinnuð þar við. Fjölmörg undirmarkmið tengdust þessu yfirmarkmiði. Strandveiðarnar uppfylltu í mismiklum mæli þau mörgu markmið, en hreyfðu við þeim flestum.
Á heildina litið verður að telja að strandveiðarnar 2009 hafi tekist vel og náð sínum meginmarkmiðum. Ánægja þátttakenda með útfærslu veiðanna var mikil. Veiðarnar eiga ágæta möguleika á að draga úr samfélagslegu ranglæti og til þess að auka sátt um fiskveiðistjórnun á Íslandi.
Markmið um nýliðun, reynsluöflun, opnun fyrir veiðar þeirra sem ekki eru handhafar veiðiheimilda og örvun atvinnustarfsemi í sjávarbyggðum náðust, svo ekki verður um villst. Árangur varðandi önnur markmið er erfiðara að meta. Ekki verður þó séð að strandveiðarnar hafi unnið gegn neinum af þeim opinberu markmiðum sem sett hafa verið um fiskveiðistjórnun á Íslandi.
Hvernig sem fiskveiðistjórnun verður háttað í framtíðinni er mikilvægt að gefa fólki kost á að spreyta sig í útgerð og sjómennsku, þeirri atvinnugrein sem Íslendingar hafa lengi byggt á. Þar geta strandveiðarnar hentað mjög vel.