Kynning á fjarnámi á háskólastigi
Þó svo að við viljum alltaf að framboðið sé meira þá er nú þegar töluvert fjölbreytt framboð af námsleiðum á háskólastigi sem boðið er upp á í fjarnámi á Íslandi. Misjafnt er eftir skólum og námsleiðum hvaða aðferðir eru notaðar í fjarnámi. Sumir styðjast við fjarfundarbúnað og mæta þá nemendur í tíma í Háskólasetrinu (eða annars staðar þar sem fjarfundarbúnaður er til staðar) og taka þátt í kennslustund í rauntíma. Algengara er þó að fjarnám sé svokallað netstutt fjarnám og þá eru kennslustundir oftast teknar upp og settar inn á heimasvæði námskeiðsins þar sem fjarnemar geta hlustað á fyrirlestra þegar þeim hentar. Mjög misjafnt er hversu oft nemendur þurfa að mæta í viðkomandi skóla, það getur verið allt frá því að vera einu sinni á mánuði og niður í að þurfa aldrei að mæta. Bæði er um að ræða fjarnám á grunnháskólastigi og framhaldsháskólastigi.
Námsleiðirnar sem í boði eru orðnar fjölmargar og má t.d. nefna sjávarútvegsfræði, umhverfis- og orkufræði, iðjuþjálfunarfræði, bókasafns- og upplýsingafræði, mannfræði, þjóðfræði, ljósmóðurfræði, iðnfræði, byggingarfræði, skattaréttur, ferðamálafræði og náttúru- og umhverfisfræði.
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér nánar framboðið í fjarnámi á háskólastigi eru hvattir til að mæta í Háskólasetur Vestfjarða kl.17:00 mánudaginn 25.maí.
Kynningin verður send út í fjarfundi til Hólmavíkur og Patreksfjarðar.