miðvikudagur 13. apríl 2011

Kynning á FAB LAB í Vísindaporti

Í Vísindaporti föstudaginn 15. apríl mun Sigríður Kristjánsdóttir verkefnastjóri á Nýsköpunarmiðstöð Íslands kynna áform um uppsetningu FAB LAB stofu í samstarfi við Menntaskólann á Ísafirði. Líkt og fyrr hefst Vísindaportið klukkan 12.10 í kaffisal Háskólaseturs og er opið öllum.

FAB LAB (Fabrication Laboratory) er hátækni smíðastofa með einföldum stýribúnaði sem gerir fólki á öllum aldri og með lágmarks tækniþekkingu kleift að hanna og smíða eigin frumgerðir. Hugmyndafræði FABLAB er að færa hátæknilausnir í iðnaði og hönnun til einstaklinga og smáfyrirtækja þannig að þau geti á einfaldan hátt komið hugmyndum sínum um iðnframleiðslu í framkvæmd.

FAB LAB er stafræn smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er. Þrjátíu og fjórar FAB LAB stofur eru nú þegar í notkun víðs vegar um heiminn. Einn mikilvægasti þáttur FAB LAB stofunnar er tengingin við aðra notendur stofa í öðrum heimshlutum, en mikil áhersla er lögð á flæði hugmynda og vinnutækni milli staða. Búnaðurinn, hugmyndafræðin og tæknin í FAB LAB er hönnuð af MIT háskólanum í Boston. Áhersla er lögð á að hver FAB LAB stofa skapi sér ákveðna sérstöðu, bæði hvað varðar tækni og áherslusvið. Nýsköpunarmiðstöð Íslands setti upp FAB LAB smiðju í Vestmannaeyjum sumarið 2008. Þá var FAB LAB smiðja opnuð á Sauðárkróki í lok ársins 2010 þar sem hugað er að sérhæfingu sem lýtur að smíði úr koltrefjum.

Til að lýsa hvernig FABLAB stofur virka, er einfaldast að segja að fullkomnar iðnvélar eru notaðar sem „prentarar" við venjulegar tölvur. Þetta þýðir að einstaklingur getur hannað hlut í tvívídd eða þrívídd í venjulegri heimilistölvu með opnum hugbúnaði, og „prentað" hlutinn svo út í tvívídd eða þrívídd með fræsurum, leiserskurðarvélum eða öðrum tækjum. Hægt er að smíða einfalda hluti, til dæmis þar sem myndir eru fræstar í gler, timbur eða önnur efni til dæmis í minjagripagerð, en einnig flóknari hluti svo sem rafrásir og smátölvur.