fimmtudagur 6. mars 2008

Kynning á Evrópumiðstöð í Vísindaporti

Vísindaport vikunnar er liður í samstarfi Háskólaseturs og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Í hádeginu föstudaginn 7. mars munu þær Anna Lúðvíksdóttir og Arnheiður Ingjaldsdóttir frá Evrópumiðstöð Impru á Nýsköpunarmiðstöð halda erindi í Vísindaporti. Þær munu kynna hvað Evrópumiðstöð er að gera og hvernig lítil og meðalstór fyrirtæki geta nýtt sér þjónustu Evrópumiðstöðvar.

 

Evrópumiðstöð er tengd neti nýsköpunarmiðstöðva Evrópu (IRC) og markmið þessara miðstöðva er að stuðla að tæknisamstarfi evrópskra fyrirtækja og stofnana og tengja þannig fólk, þekkingu og færni. Þegar fyrirtæki hafa auðveldari aðgang að þekkingu eykur það samkeppnishæfni þeirra og getur stutt þau í nýsköpun og vexti. Þannig þjónustar Evrópumiðstöð bæði fyrirtæki sem vilja koma þekkingu sinni á framfæri erlendis, sem og þeim sem vilja nýta sér þekkingu sem
aðrir búa yfir. Einnig tekur Evrópumiðstöð þátt í fyrirtækjastefnumótum fyrir hönd okkar viðskiptavina. Við tökum þátt í stórum sjávarútvegssýningum en einnig sýningum á öðrum sviðum, svo sem orkumálum og hugbúnaðarmálum og kynnum fyrir erlendum aðilum þær nýjungar sem íslensku fyrirtækin búa yfir.

 

Vísindaportið er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum þar sem einhver segir í stuttu máli, 20-30 mínútur, frá sínum núverandi eða eldri rannsóknum - og svo er orðið laust. Fyrirlesturinn fer fram í kaffisal Háskólasetursins og eru allir velkomnir.