miðvikudagur 25. febrúar 2015

Kynjakvótar í stjórnum hlutafélaga

Í Vísindaporti föstudaginn 27. febrúar mun Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarritari Ísafjarðarbæjar, fjalla um kynjakvóta í stjórnum hlutafélaga en Þórdís skrifaði lokaritgerð sína í lögfræði um þetta efni. Í ritgerðinni veltir hún upp spurningunni hvernig kynjakvótinn sé, hversvegna hann sé tilkominn og hvað þurfi að gera svo hann sé virtur?

Vísindaportið hefst sem fyrr kl. 12.10 í kaffistofu Háskólaseturs og er opið öllum.

Í fyrirlestri sínum í Vísindaporti mun Þórdís beina sjónum sínum að því hvers vegna lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja voru sett og hvort einhver munur sé á stjórnarháttum kynjanna. Hún fer yfir það hvort jöfn kynjahlutföll hafi eitthvað að segja fyrir rekstur fyrirtækja og hvað það sé sem aðgreinir stjórnarhætti kynjanna. Vinna blandaðir vinnuhópar betur saman en einsleitir? Skila þeir betri árangri? Skila fyrirtæki þar sem konur og karlar koma að stjórnun meiri arði en önnur? Allt eru þetta spurningar sem leitast verður við að svara í fyrirlestrinum.