mánudagur 12. nóvember 2007

Kvöldfyrirlestur með Lindsay Simpson

Í kvöld klukkan 20.00 heldur rithöfundurinn og háskólakennarinn Lindsay Simpson opinn fyrirlestur í fundarsal Háskólaseturs. Fyrirlesturinn ber yfirskriftina „The Curer of Souls: writing Australias convict past" sem gæti útlagst á íslensku „Sálnahirðirinn: að skrifa um refsifangafortíð Ástralíu." Margar nýlegar ástralskar skáldsögur fjalla um tengsl búsetu hvítra manna í Ástralíu við fortíð landsins sem refsifanganýlendu. Í skáldsögu sinni The Curer of Souls kannar Lindsay Simpson lífið í Van Diemen's Land, sem nú heitir Tasmanía, en þar var í upphafi 19. aldar sett á fót fanganýlenda. Skáldsagan byggir á þremur 19. aldar dagbókum og í henni er leitast við að skapa samtal á milli fortíðar og samtíðar.


Lindsay Simpson er verðlaunaður rithöfundur og háskólakennari, The Curer of Souls, sem út kom hjá Random House á síðasta ári, er hennar fyrsta skáldsaga. Áður hefur hún sent frá sér þrjár bækur sem fjalla um raunverulega glæpi, eina ævisögu og ferðabók um Tasmaníu. Hún er yfirmaður blaðamennskunáms við James Cook University.


Allir eru hjartanlega velkomnir á fyrirlesturinn sem er hluti af sameiginlegri fyrirlestraröð Háskólaseturs og Vestfjarðaakademíunnar. Fyrirlesturinn fer fram á ensku.

Á morgun þriðjudag heldur Lindsay Simpson einnig örnámskeið í almannatengslum fyrir smærri stofanir og fyrirtæki á vegum Háskólaseturs.