fimmtudagur 14. janúar 2010

Kvikmyndir um menningu og tungumál í norður Kurzeme í Lettlandi

Í Vísindaporti föstudaginn 15. janúar mun Lauma Gulbe, meistaranemi í haf- og strandsvæðastjórnun, segja frá kvikmyndaverkefni sem hún vann að í Lettlandi skömmu eftir að hún útskrifaðist frá Vidzme háskólanum þar í landi með gráðu í ferðamálafræði.

 

Markmið kvikmyndaverkefnisins var að framleiða tvær kvikmyndir og gefa út á DVD diskum. Myndirnar fjalla um líf fólks sem bjó á strandlengjunni í norður Kurzeme í Lettlandi. Í myndunum er komið inn á það hvernig strandlengjan leit út fyrir 100 og 200 árum, hvernig fólk bjó, byggði skip og sótti sjóinn. Í myndunum er einnig fjallað um lívónska tungumálið sem var talað á svæðinu en er nú nærri útdautt, enda lést síðasti lívónsku mælandi maðurinn nýlega. Tungumálið hefur engu að síður möguleika á endurreisn þar sem það er vel skrásett og hefur auk þess lagalegan sess í Lettlandi.

 

Í spjalli sínu mun Lauma fjalla um þann menningar- og sögulega bakgrunn í Lettlandi sem hvatti til þess að myndirnar voru gerðar. Hún mun jafnfram sína brot úr myndunum en þær má nálgast í heild sinni á vefsíðu verkefnisins. Þar má einnig nálgast nánari upplýsingar um myndirnar, eða á enska hluta vefsíðu Háskólaseturs.

 

Erindið fer fram á ensku og er haldið í kaffisal Háskólasetur. Það hefst klukkan 12.10 og er opið öllum.