fimmtudagur 10. apríl 2008

„Krossahæðin - Kyrrlát andstaða trúaðrar þjóðar“

Í Vísindaporti vikunnar flytur Guðfinna M. Hreiðarsdóttir sagnfræðingur erindið „Krossahæðin - Kyrrlát andstaða trúaðrar þjóðar". Segir hún þar frá Krossahæðinni í Litháen sem ekki aðeins hefur mikla trúarlega merkingu heldur er líka einstakt tákn um sjálfstæðisbaráttu litháísku þjóðarinnar.

 

Guðfinna M. Hreiðarsdóttir er sagnfræðingur og starfar sjálfstætt að ýmsum verkefnum tengdum söguritun og varðveislu menningarminja. Jafnhliða starfar hún við umbrot og hönnun, auk þess að vera í meistaranámi í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands.


Vísindaportið er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum þar sem einhver segir í stuttu máli frá sínum núverandi eða eldri rannsóknum - og svo er orðið laust. Fyrirlesturinn fer fram í kaffisal Háskólasetursins og eru allir velkomnir.