miðvikudagur 18. ágúst 2010

Kór íslenskunema á Núpi syngur á Silfurtorgi

Hópur nemenda sem stundar þessa dagana íslenskunám á Núpi á vegum Háskólaseturs Vestfjarða hefur verið að syngja í kór með ísfirska kórstjórnandanum Bjarneyju Ingibjörgu Gunnlaugsdóttur.  Á þriðjudaginn hélt kórinn stutta tónleika á Silfurtorgi fyrir bæjarbúa og samnemendur sína og sýndi þar afrakstur æfinga undanfarinna tveggja vikna.

 

Kórinn söng hefðbundin íslensk lög eins og Vatnsdælingastemmu og Sá ég spóa sem og alþjóðlegri lög eins og Meistari Jakob.  Einn kórmeðlimanna, Emmi Kahlainen frá Finnlandi, sagðist vera ánægð með hversu fjölbreytt lög voru tekin fyrir í kórnum, allt frá þjóðlögum til barnalaga sem og þekktari laga.  Emmi er að fara að læra dans við Listaháskóla Íslands í vetur og mun þar ábyggilega kynnast íslenskri tónlist enn frekar.

 

„Að vinna með þessum hópi hefur verið skemmtileg upplifun því við virkilega náðum að tengjast.  Að syngja í kór kennir nemendum heilmikið um framburð, tónlistarmenningu landsins sem og beitingu raddarinnar, allt á sama tíma, svo mér finnst kórinn vera mikilvægur hluti íslenskunámskeiðsins" segir Bjarney Ingibjörg kórstjórnandi.

 

Með valnámskeiðum eins og kórsöng, danskennslu og leikjum eru nemendur íslenskunámskeiðsins hvattir til að beita öllum sínum skilningarvitum til að læra tungumálið eða eins og Bjarney Ingibjörg segir: „Þú lærir einfaldlega meira þegar þú hefur gaman af því í leiðinni."