föstudagur 26. september 2014

Konur ráða búsetu

Byggðaráðstefna var haldin um síðustu helgi á Patreksfirði að frumkvæði Háskólaseturs Vestfjarða, en að henni stóðu auk Háskólaseturs, Byggðastofnun, Fjórðungssamband Vestfjarða, og Vesturbyggð. Nú hefur Byggðastofnun ákveðið að halda slíka ráðstefnu aftur að ári og er gert ráð fyrir að hún verði þá á Breiðdalsvík. Ráðstefnan á Patreksfirði hefur greinilega sýnt að hægt er að halda ráðstefnur utan stórra þjónustukjarna á landsbyggðinni og hafa nokkrir þátttakendur tekið fram að þeim hafi þótt meira spennandi að koma á Patreksfjörð en t.d. á Ísafjörð eða Akureyri.

 

Ráðstefnan gaf ráðherra tilefni til að fljúga á Bíldudal í vindasamri veðráttu og það gaf fjölda þátttakenda að sunnan og norðan tækifæri til að fara í gegnum fallega Gufudalssveit. Það gaf þátttakendum tækifæri til að sjá með eigin augum þá miklu uppbyggingu í seiðaeldisstöðum, sem á sér nú stað í Tálknafirði sérstaklega. Skráðir þátttakendur voru 75, en við það bættust heimamenn, sem voru velkomnir á fyrirlestra án þátttökugjalds og getur Háskólasetrið verið sátt við aðsóknina.

 

Ráðstefnan setti kjör kvenna og áhugamál þeirra í sviðsljósið. Skólamál, þjónusta við aldraða og aðgengi að þjónustu virðist skipta konur meira máli en karla, svo dæmi séu nefnd.

Margrét Brynjólfsdóttir kynnti könnun meðal eldri borgara í Vesturbyggð, meðan Mariann Villa frá norsku Byggdeforskningsinstitutt sýndi að umræðu um framtíð lítilla skóla er keimlík í Noregi og á Íslandi.

Í ýmsum erindum kom fram að ein lausn er að rjúfa einangrun og stækka vinnusóknarsvæði og kom m.a. Hjalti Jóhannesson frá RHA inn á það í greiningu samfélagsáhrifa Vaðlaheiðaganga og Vífill Karlsson sem skoðaði samgöngubætur og búferlaflutninga.

 

Sigurður Árnason, Vífill Karlsson og Þóroddur Bjarnason byggðu sín erindi á tölum um þróun kynjahlutfalls í einstökum byggðum um land allt og var fróðlegt að bera saman ólíka þróun í byggðum, sem við fyrstu sýn eru bara sjávarbyggðir. Sjávarbyggð er greinilega ekki bara sjávarbyggð. Vífill Karlsson sýndi t.d. fram á að fjöldi breyta geti haft áhrif á búsetuval og margar breytur vinna á móti hver annarri, en þátttakendur voru sammála um að það séu konur sem stýra búsetuvali á endanum og því mikilvægt að hafa þeirra áhugamál og áhyggjur í huga.

 

Konur og karlar og atvinnusköpun í dreifbýli var titill erindis Sigurbjargar Ásgeirsdóttur og Þorgerðar Einarsdóttur prófessors við HÍ. Þær sýndu fram á að stuðningur við karllægar atvinnugreinar eins og landbúnað, sjávarútveg og orkufrekan iðnað hafi lengst af verið talinn hryggjarstykki byggðastefnu, en að sjaldnast hafi þá verið hugsað um hvort þessi störf sem sköpuðust með miklum tilkostnaði hafi aðdráttarafl fyrir konur. Þorgerður Einarsdóttir og Sigurbjörg Ásgeirsdóttir enda þó á því að konur hafi haslað sér völl á eigin forsendum og lengst af án mikils skilnings og stuðnings í kerfinu.

Á sömu nótum enduði erindi Sigurborgar Kr. Hannesdóttur og Elísabetar Gunnarsdóttur. Sigurborg lét draumana rætast og gaf um leið innsýn í það hvernig konur sjá fyrir sér lífið – ekki endilega í stórborg, heldur í góðu, hvetjandi samfélagi. Hún benti þó á sama tíma á að samfélagið, fólkið, það værum við sjálf og því ekki eftir neinu a bíða. Elísabet Gunnarsdóttir vakti athygli á mikilvægi skapandi greina í þessu sambandi, til að skilgreina og bæta sjálfsmynd samfélags, enda geti skapandi greinar hjálpað til við að endurnýja slagkraftinn.

 

Fjöldi annarra erinda varpaði ljósi á lífskjör í sjávarbyggðum, en Albertína Friðbjörg Elíasdóttir og Râna Campbell kynntu lokaverkefni sín, Albertína um staðarvitund Ísfirðinga, en Râna um hvernig arfleifð tengd sjósókn hefur áhrif á sjálfsmynd Vestfirðinga í dag. Edward H. Huijbens, forstöðumaður rannsóknarmiðstöðvar ferðamála og prófessor við HA líkti ferðaþjónustu við ylrækt og varaði við að koma ferðamanna á norðurslóðir lúti ekki sömu lögmálum og fiskgengd eða komur farfugla. Hans erindi var væntanlega köld gusa fyrir þá sem vænta þess að ferðaþjónustan muni redda öllum málum.

 

Einar Jónsson frá Skipulagsstofnun kynnti landskipulagsstefnu sem tæki til að skapa heildarstefnu um allt land, og sömuleiðis voru þeir Hrafnkell Á. Proppé svæðisskipulagsstjóri hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Guðjón Arnar Kristjánsson sammála um að það eigi að horfa á landið sem eina heild og koma upp úr skotgröfunum þar sem "við" og "þið" eru andstæðingarnir.

Guðjón Arnar kynnti byggðastefnu sem unnin var af grasrótinni má segja, af meðlimum í samtökunum Landsbyggðin lifi, en Hrafnkell dró fram að ekki megi gleyma hlutverki höfuðborgarsvæðisins í samkeppnishæfni landsins, enda Ísland í heild eitt jaðarsvæði sem sé í samkeppni við útlönd.

 

Matthías Kokorsch frá HÍ og Tor Arne Gjertsen frá Norges Arktiske Universitet, Öltu, fengust við stöðu sjávarbyggða, en Matthías Kokorsch, ásamt Karli Benediktssyni og Önnu Karlsdóttur frá HÍ greina áhuga þeirra sem tengjast sjávarútvegi að bæta eða breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu, meðan Tor Arne Gjertsen lýsir árangri lítils sveitarfélags nyrðst í Finnmörku við að halda í sinn hluta í veiðum og vinnslu og byggja sig upp eftir mikil áföll í greininni.

 

Magnfríður Júlíusdóttir greindi fjölmiðlaumfjöllun í sambandi við flutning fiskvinnslustarfa frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðis annars vegar og flutningi Fiskistofu frá höfuðborgarsvæðinu til Akureyrar hins vegar. Björn Þorláksson, ritstjóri Akureyri vikublaðs gerði erfiða stöðu fjölmiðla á landsbyggðinni að umtalsefni, að opinni umræðu og virku lýðveldi stafi hætta af brostnum eldveggjum milli auglýsinga og fréttaflutnings.

 

Á laugardagsmorgni var tekinn frá tími til að hugleiða hagnýtingu þekkingar. Þessum þætti stýrði Fjórðungssamband og voru þrír umræðuhópar, sem fengust við ímyndarvanda, byggðastefnu og þróun sjávarútvegs sem undirstöðugrein.

 

Enginn stóru fjölmiðlanna sá sér fært að vera á staðnum. Það segir kannski allt um stöðu byggðamálaumræðu í landinu. Byggðafræðingar geta þá lært af konum, en eins og kom fram í erindi Þorgerðar Einarsdóttur og Sigurbjargar Ásgeirsdóttur um konur og karla í atvinnusköpun, þá er hægt að hasla sér völl utan kerfis og án stuðnings. Það er þó auðveldara með stuðningi og fékk ráðherra gott lófaklapp þegar hann sagði frá nýjum 10 m. kr. sjóði til rannsókna á byggðamálum.