föstudagur 30. ágúst 2013

Kennslustofan Ísafjörður

[mynd 1 h]Um síðastliðna helgi lauk sumarnámskeiðum í íslensku við Háskólasetur Vestfjarða þegar síðasti nemendahópurinn var kvaddur í sérstöku lokahófi laugardagsmorguninn 24. ágúst á veitingastaðnum Við Pollinn. Kvöldið áður fór einnig fram lokahóf fyrir nemendur á þriggja vikna námskeiðinu fyrir Erasmus- og Nordplusnemendur sem fram fór á Hótel Núpi í Dýrafirði þar sem þessi 85 nemenda hópur hafði dvalið í þrjár vikur.


Eins og áður hefur komið fram hér á vefnum var 2013 sannkallað metár hvað viðvíkur íslenskunámskeiðum við Háskólasetrið. Alls hefur 171 nemi stundað nám í íslensku fyrir erlenda nemendur við stofnunina á árinu. Háskólasetrið hefur markað sér sérstöðu á sviði sumarnámskeiða í íslensku á landsvísu og má ætla að þessi starfsemi Háskólasetursins eflist enn frekar á komandi árum.


[mynd 2 h]Sérstaða námskeiðanna við Háskólasetrið felst meðal annars í aðferðarfræði sem í stuttu máli mætti kalla „kennslustofan Ísafjörður“. Þessar kennsluaðferðir Háskólasetur á íslenskunámskeiðunum verða kynntar sem ”best praxis” eða gott verklag á ráðstefnu erlendis innan skamms. Háskólasetrið fékk í þessu samhengi beiðni um að fá sendann miða sem nemendur hengja um hálsinn þegar þeir taka þátt búðaralli og öðrum tungumálaæfingum í daglegu lífi á Ísafirði. Með þessari aðferð verður Ísafjörður, eins og fyrr segir, að stórri kennslustofu og veitir ekki af þegar fjöldi nemenda fer yfir 170. Segja má að kennarar á námskeiðinu séu allir þeir sem taka sér tíma og svara nemendum á einfaldri og skýrri íslensku. Háskólasetrið fór þess á leit við Karítas Kvaran á Skrifstofu alþjóðasamskipta Háskóla Íslands, sem fer á erlendu ráðstefnuna, að benda sérstakleg á að þetta væri ekki hægt án þess að bæjarbúar tækju virkan þátt í kennslunni. Ísfirðingar hafa nefnilega fengið það orð á sig að vera mun viljugri að tala íslensku við nemendur en fólk í Reykjavík, sem virðist frekar skipta yfir í ensku. Háskólasetrið er bæjarbúum afar þakklátt fyrir að gerast aðstoðarkennarar á háskólastigi ár eftir ár í ágúst þegar þorri íslenskunámskeiðanna fer fram.


Á næstu vikum leggjast starfsmenn Háskólaseturs í að skipuleggja kennslu og framboð íslenskunámskeiða á næsta ári enda veitir ekki af þar sem eftirspurn eftir námskeiðum virðist aukast sífellt.