mánudagur 23. febrúar 2009

Kárahnjúkavirkjun – umhverfismat og umræða

Í vikunni eru áætluð tvö opin fræðsluerindi í tengslum við námskeið um úrlausn deilumála í auðlindastjórnun sem nú sendur yfir í meistaranámi í haf- og strandsvæðastjórnun, við Háskólasetur Vestfjarða.

 

Það er álit margra að umhverfisvitund Íslendinga hafi breyst mikið í kjölfar umræðna og deilna í tengslum við ákvörðun stjórnvalda að reisa Kárahnjúkavirkjun. Í báðum erindunum verður sjónum beint að þessu umdeilda máli. Í því fyrra mun Jakob Gunnarsson, sérfræðingur hjá Skiplagsstofnun fjalla um aðdraganda ákvörðunarinnar, þ.á m. um forsendur þess að Skipulagsstofnun lagðist gegn framkvæmdinni. Í síðara erindi vikunnar mun Andri Snær Magnason rithöfundur deila sýn sinni á málið í tengslum við þær hugmyndir sem fram komu í metsölubók hans Draumalandi.

 

Erindin fara fram í stofu 3 í Háskólasetrinu og eru allir áhugasamir velkomnir. Erindin og umræður að þeim loknum fara fram á ensku.

 

24.02. Þriðjudagur kl. 13-15.
Mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og úrskurður Skipulagsstofnunar um áhrif Kárahnjúkavirkjunar á umhverfið frá árinu 2000.
Fyrirlesari: Jakob Gunnarsson, sérfræðingur hjá Skipulagsstofnun.

 

Í fyrirlestrinum mun Jakob fjalla á hlutlægan hátt um ferli umhverfismatsins fyrir Kárahnjúka og forsendur þess að Skipulagsstofnun lagðist gegn framkvæmdinni. Einnig mun hann fjalla um þýðingu niðurstöðu matsins fyrir endanlega ákvörðunartöku stjórnvalda um framkvæmdir af þessari gerð.

 

26.02. Fimmtudagur kl. 13-15.
Fyrirlesari: Andri Snær Magnason, rithöfundur.

 

Andri Snær mun byggja fyrirlestur sinn á innihaldi bókarinnar Draumalandið með sérstaka áherslu á málefni sem snerta ákvörðun stjórnvalda um að reisa Kárahnjúkavirkjun. Andri Snær hefur skoðað málið frá ýmsum hliðum og gefið landsmönnum nýja sýn á svokallaða stóriðjustefnu stjórnvalda. Í fyrirlestrinum og umræðum á eftir verður fjallað sérstaklega um þetta mál í tengslum við úrlausn deilumála um nýtingu auðlinda en auðséð er að þegar auðlindir ganga til þurrðar eða þær láta á sjá þá verða deilur háværari og flóknari úrlausnar. Enn fremur snertir málið breytingar á hugmyndafræði og skynjun almennings á hugtökum eins og lýðræði, réttlæti, sameign, samstjórn og lífsgæði.