Kallað er eftir erindum!
Málþing í tilefni af 25 ára afmæli fjarkennslu við Háskólann á Akureyri verður haldið föstudaginn 16. júní í Háskólasetri Vestfjarða. Háskólasetur gegnir mikilvægu hlutverki þar sem íbúar Vestfjarða geta nýtt aðstöðu þar til að stunda fjarnám við aðra skóla og sinnir Háskólasetur m.a. fjarprófsþjónustu. Háskólinn á Akureyri hefur nú boðið upp á fjarnám í 25 ár og af því tilefni verður haldið málþingið Háskólanám í heimabyggð í júní.
Því er kallað eftir ágripum erinda fyrir málþingið en þemað getur verið allt sem tengist fjarnámi og fjarkennslu, s.s. mikilvægi fjarnáms fyrir samfélagið í heild, landsbyggðina og smærri samfélög, þróun fjarnáms og fjarkennslu, uppbygging og þróun fjarnáms við Háskólann á Akureyri sérstaklega, kennslufræði og kennsluaðferðir í fjarkennslu, upplifun og reynsla nemenda og kennara og svo mætti áfram telja.
Almenn erindi og fyrirspurnir í kjölfarið skulu ekki taka lengri tíma en 20 mínútur. Ágrip af erindum
(hámark 250 orð) skulu berast fyrir 8. maí 2023.
Vinsamlega sendið ágripin til Mörthu Lilju Olsen, skrifstofustjóra Rektorsskrifstofu Háskólans á Akureyri, (marthalilja@unak.is).