föstudagur 28. október 2011

Joshua Mackintosh: Draumastarfið reyndist vera á 69. breiddargráðu

Við höldum áfram að fylgja nokkrum brautskráðum meistaranemum í haf- og strandsvæðastjórnun eftir og könnum hvernig þeim hefur gengið að finna störf sem hæfa þeirra menntun.


Næstur í röðinni er Joshua Mackintosh, sem útskrifaðist með MRM gráðu í haf-og strandsvæðastjórnun árið 2011. Lokaritgerð hans fjallaði um aðgengi almennings að strandlengju í Nova Scotia fylki í Kanada.


Áður en hann hóf nám á Ísafirði hafði Josh lokið BCD gráðu í samfélagshönnun (útskrift með láði) og umhverfis-og skipulagsfræðum frá Dalhousie háskóla í Kanada. Einnig hafði hann lokið BA gráðu í stjórnmálafræði frá Acadia háskóla í Kanada.

Skömmu fyrir brautskráningu, eða í maí á þessu ári, fékk Josh stöðu hjá stjórnvaldsstofnun vestur-kanadískra inúíta (ILA) í í Tuktoyaktuk í norðvesturhluta Kanada. Landsvæðið kallast Inuvilauit og er Tuktoyaktuk á 69. breiddargráðu, þremur gráðum norðar en Ísafjörður. Hans starf er að samhæfa rannsóknir á sviði landnýtingar (e. land use research coordinator). Í starfi sínu leggur hann stund á rannsóknir, þróar stefnumótandi skjöl og skipuleggur opna fundi með hagsmunaaðilum og ýmis konar kynningar fyrir stjórnir og ráð.

Strax á fyrsta mánuði voru honum falin ýmis krefjandi verkefni, svo sem að fara á ráðstefnu fyrir hönd ILA, leiða margs konar verkefni á sviði samfélagsskipulags, fornleifaskráningar, sem og að vinna stefnumörkun vegna rannsókna á vegum ILA. Síðast en ekki síst fer hann með ferðina í stjórnunaráætlun fyrir strandlengju sem tekur til alls landssvæðis Inuvilauit-inúíta, en það er heilir 91 þúsund ferkílómetrar að flatarmáli.

Að sögn Josh er „[...] starfið frábært og líka fólkið sem ég vinn með. Skrifstofan er full af fólki á mínum aldri þannig að við eyðum stórum hluta frítíma okkar saman við veiðar, siglingar, fjallgöngur og höldum síðan matreiðslukeppnir!"

Josh hvetur þá sem áhuga hafa á að fræðast um möguleika á sérhæfðum störfum í norðanverðu Kanada að hafa samband við sig í netfangið: JMackintosh [at] irc.inuvialuit.com

www.inuvialuitland.com


Joshua Mackintosh
Joshua Mackintosh