föstudagur 8. janúar 2016

Jóhann Sigurjónsson sérstakur erindreki um málefni hafsins

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar og stjórnarmaður Háskólaseturs til fjölda ára, hefur verið skipaður í stöðu sérstaks erindreka íslenskra stjórnvalda varðandi málefni hafsins hjá utanríkisráðuneytinu. Felst starfið í því að samræma verkefni varðandi málefni hafsins sem heyra undir fjögur ráðuneyti og leiða samráðsvettvang ráðuneytanna á þessu sviði. Jafnframt mun hann taka þátt í starfi á alþjóðavettvangi og sinna stefnumótun stjórnvalda í málefnum hafsins.

Jóhann Sigurjónsson hefur setið, sem fulltrúi rannsóknastofnanna, í stjórn Háskólaseturs Vestfjarða frá stofnun þess. Hann var aðalmaður í stjórn frá 2005-2013, en hefur síðan þá verið varamaður. Það hefur verið afar dýrmætt fyrir Háskólasetrið að hafa svo reynslumikinn aðila á sviði hafrannsókna innan stjórnar, ekki síst þegar meistaranámsleiðin í haf- og strandsvæðastjórnun var í burðarliðnum og frumþróun. Rannsóknarstofnanir á Íslandi skipa einn mann í stjórn Háskólaseturs og hafa forstjórar Hafrannsóknarstofnunar og Veðurstofunnar frá upphafi setið í stjórn. Þessar tvær stofnanir, sem jafnframt reka stærstu einingarnar í Vestrahúsinu utan Háskólasetrið, tengjast á marvíslegan hátt áherslusviðum Háskólasetursins og hefur það notið góðs af samstarfi við þær í gegnum tíðina.


Jóhann Sigurjónsson.
Jóhann Sigurjónsson.