miðvikudagur 22. ágúst 2012

Jaðarbyggðir og þjóðhagkerfið

Háskólasetur Vestfjarða á Ísafirði hýsir alþjóðlega ráðstefnu um málefni jaðarbyggða, sem ber yfirskriftina „jaðarbyggðir og þjóðhagkerfið" dagana 3.-5. september n.k.

 

Rástefnan er liður í starfi PEMABO, rannsóknarnets um málefni jaðarbyggða á vegum Regional Studies Association. Þetta er í þriðja sinn sem ráðstefna af þessu tagi er haldin, en þær fyrri voru haldnar í Noregi 2008 og Skotlandi 2010.

 

Regional Studies association er þverfaglegur samstarfsvettvangur hagfræðinga, landfræðinga, skipulagsfræðinga og annarra sem taka rými og samfélag til greina í sínum störfum, hvort sem er í fræðastarfi eða stefnumótun, þéttbýli eða dreifbýli. Viðfangsefni ráðstefnunnar að þessu sinni er samband jaðarbyggða og þjóðhagkerfisins og er spurt hvort það einkennist af samhjálp (symbiosis), hlunnfærslu (exploitation) eða niðurgreiðslu (burden).

 

Til að varpa ljósi á þetta viðfangsefni verða haldnar málstofur í Háskólasetri Vestfjarða dagana 3. og 4. september en 5. september munu ráðstefnugestir ferðast um sunnanverða Vestfirði og kynna sér þróunarstarf á vegum fyrirtækja og stofnana á svæðinu. Framsögumenn á ráðstefnunni eru um 30 talsins og koma víða að. Flestir starfa á fræðasviðinu en einnig koma að þátttakendur úr stjórnsýslunni. Auk innlendra þátttakenda, m.a. frá Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og Byggðastofnun, koma um 25 fræðimenn um lengri veg frá háskólum í Skotlandi, Wales, Írlandi, Noregi, Svíþjóð, Hollandi, Þýskalandi, Ítalíu, Tékklandi og Rússlandi.

 

Sýn þátttakenda á jaðarbyggðir er fjölbreytt enda um margrætt og afstætt hugtak að ræða. Þannig segja nokkrir frummælenda frá viðfangsefnum sem flokkast undir „byggðamál" samkvæmt íslenskri umræðuhefð, s.s. eyjar við Skotland og smærri sveitarfélög í nyrðri hlutum Svíþjóðar, meðan aðrir skoða jaðarstöðu fjölmennra svæða innan stórra þjóða, s.s. Sardiníu innan Ítalíu og nágrannabyggða Berlínar í Þýskalandi. Þátttakendur koma af mörgum sviðum og beita fjölbreyttum rannsóknaraðferðum s.s. hermilíkönum, tölfræðilegum aðferðum, tilviksrannsóknum og orðræðugreiningu svo dæmi séu tekin.

Frekari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á heimasíðu Háskólaseturs Vestfjarða.

 

Frekari upplýsingar um PEMABO rannsóknarnetið og Regional Studies Association má finna á heimasíðum þeirra:

http://www.pemabo.net/ og

http://www.regional-studies-assoc.ac.uk/research-networks/current/pmrne.asp

 

Frekari upplýsingar veita Dr. Peter Weiss hjá Háskólasetri Vestfjarða (869 3045 weiss@uwestfjords.is) og Dr. Kristinn Hermannsson (+44 781 690 4486, kristinn.hermannsson@strath.ac.uk) hjá University of Strathclyde.