fimmtudagur 5. ágúst 2021

Íslenskunámskeiðin hófust í vikunni

Síðastliðinn þriðjudaginn hófst þriggja vikna íslenskunámskeið (A1-A2) Háskólaseturs af krafti með morgunkennslu Eiríks Sturlu Ólafssonar, margreynds kennara sem kennir námskeiðið nú annað árið í röð. Eftir hádegishlé var rölt um bæinn og helstu staðir á Ísafirði kynntir fyrir nemendum ásamt áhugaverðum staðreyndum um bæinn og nærumhverfið. Að því loknu hélt Dr. Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs fyrirlestur um Háskólasetrið og Vestfirði. Um kvöldið var svo komið að kvikmyndasýningu og var horft á hina rómuðu kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar Börn náttúrunnar.

Eins og alltaf koma nemendurnir frá öllum heimshornum þótt talsvert beri á fólki frá Bandaríkjunum og Kanada eins og verið hefir undanfarin ár. Það færist nefnilega í vöxt að aðilar vestanhafs komi hingað til að læra og æfa sig í íslensku. En hvað sem því líður er hópurinn í ár einkar áhugasamur um að læra eins mikið og unnt er á þessum skamma tíma og tekur einnig, eins og sjá má af mynd, kóvíð alvarlega.

Framundan eru krefjandi þrjár vikur en vonandi jafnframt gefandi og er von til að nemendurnir fái tækifæri til að æfa sig og nota tungumálið fyrir utan kennslustofuna í mikilum mæli. Ísafjörður er nefnilega ekki síður kennslustofa þegar kemur að því að læra og tileinka sér íslensku. 

 


Hópurinn fyrir utan Háskólasetrið á leið í göngu um bæinn.
Hópurinn fyrir utan Háskólasetrið á leið í göngu um bæinn.
1 af 3