þriðjudagur 18. ágúst 2015

Íslenskunámskeið í fullum gangi

Þessa dagana standa yfir fjölmenn íslenskunámskeið við Háskólasetur Vestfjarða en Háskólasetrið hefur staðið fyrir slíkum námskeiðum frá árinu 2008. Alls eru átta námskeið í boði að þessu sinni, allt frá byrjendanámskeiðum til framhaldsnámskeiða. Áttatíu nemendur sækja námskeiðin og fer kennslan fram á Ísafirði, Suðureyri og að Núpi í Dýrafirði.

Grunnskipulag námskeiðanna hefur haldið sér allt frá árinu 2008 enda hefur það reynst vel. Á morgnanna er kennt í hefðbundinni bekkjarkennslu þar sem skipulega er farið yfir námsefnið. Eftir hádegi er kennslan svo meira eins og í háskólanámi með fjölda stuttra valnámskeiða þar sem nemendum kasta sér í djúpu laugina. Valnámskeiðin eru fjölbreytt og í þeim er stuðst við mjög ólíkar aðferðir við kennslu. Þar læra nemendur m.a. kórsöng, bragfræði, skyndihjálp og jafnvel að blóta á íslensku. Valnámskeiðin eru þó eðli málsins samkvæmt val og nemendum er frjálst að gera eitthvað allt annað eins og að skreppa í búðir, kaffihús eða í bakarí. Nemendur eru duglegir að nýta sér þá kunnáttu sem þeir hafa aflað sér á námskeiðinu við þessar aðstæður og sömuleiðis er ísfirskt afgreiðslufólk duglegt að svara þeim á íslensku. Slíkt er ómetanlegt fyrir námskeiðin enda snúast þau fyrst og fremst um að kenna nemendum að fóta sig í málinu við raunverulegar aðstæður.

Föstudaginn 14. ágúst lauk kennslu á miðstigsnámskeiðinu en í dag bætust við nemendur sem stunda nám á stuttum byrjendanámskeiðum og nemendur sem koma á vikulangt framhaldsnámskeið. Öllum námskeiðunum lýkur svo föstudaginn 21. ágúst og þá er að vona að allir námsmennirnir verði duglegir að viðhalda tungumálinu hvort sem það er á Ísafirði, Akureyri, Reykjavík eða jafnvel í sínu heimalandi.


Nemendahópurinn sem lauk námi síðastliðinn föstudag ásamt Peter Weiss, forstöðumanni Háskólaseturs og Ragnheiði Margréti Guðmundsdóttur kennara.
Nemendahópurinn sem lauk námi síðastliðinn föstudag ásamt Peter Weiss, forstöðumanni Háskólaseturs og Ragnheiði Margréti Guðmundsdóttur kennara.