Íslenskunámskeið í fullum gangi
Þessa dagana standa yfir fjölmenn íslenskunámskeið við Háskólasetur Vestfjarða en Háskólasetrið hefur staðið fyrir slíkum námskeiðum frá árinu 2008. Alls eru átta námskeið í boði að þessu sinni, allt frá byrjendanámskeiðum til framhaldsnámskeiða. Áttatíu nemendur sækja námskeiðin og fer kennslan fram á Ísafirði, Suðureyri og að Núpi í Dýrafirði.
Grunnskipulag námskeiðanna hefur haldið sér allt frá árinu 2008 enda hefur það reynst vel. Á morgnanna er kennt í hefðbundinni bekkjarkennslu þar sem skipulega er farið yfir námsefnið. Eftir hádegi er kennslan svo meira eins og í háskólanámi með fjölda stuttra valnámskeiða þar sem nemendum kasta sér í djúpu laugina. Valnámskeiðin eru fjölbreytt og í þeim er stuðst við mjög ólíkar aðferðir við kennslu. Þar læra nemendur m.a. kórsöng, bragfræði, skyndihjálp og jafnvel að blóta á íslensku. Valnámskeiðin eru þó eðli málsins samkvæmt val og nemendum er frjálst að gera eitthvað allt annað eins og að skreppa í búðir, kaffihús eða í bakarí. Nemendur eru duglegir að nýta sér þá kunnáttu sem þeir hafa aflað sér á námskeiðinu við þessar aðstæður og sömuleiðis er ísfirskt afgreiðslufólk duglegt að svara þeim á íslensku. Slíkt er ómetanlegt fyrir námskeiðin enda snúast þau fyrst og fremst um að kenna nemendum að fóta sig í málinu við raunverulegar aðstæður.
Föstudaginn 14. ágúst lauk kennslu á miðstigsnámskeiðinu en í dag bætust við nemendur sem stunda nám á stuttum byrjendanámskeiðum og nemendur sem koma á vikulangt framhaldsnámskeið. Öllum námskeiðunum lýkur svo föstudaginn 21. ágúst og þá er að vona að allir námsmennirnir verði duglegir að viðhalda tungumálinu hvort sem það er á Ísafirði, Akureyri, Reykjavík eða jafnvel í sínu heimalandi.