Íslenskunámskeið á Núpi og Ísafirði
Í síðustu viku hófust árleg íslenskunámskeið fyrir erlenda nemendur við Háskólasetur Vestfjarða. Þetta er níunda árið sem Háskólasetrið stendur fyrir slíkum námskeiðum en í ár fara námskeiðin fram á Ísafirði og á Núpi í Dýrafirði.
Alls eru 78 nemendur skráðir á námskeiðin að þessu sinni. Flestir taka þátt í byrjendanámskeiðum sem fara fram bæði á Núpi og á Ísafirði en einnig eru mættir til leiks lengra komnir nemendur sem margir hverjir hafa áður komið á námskeið hjá Háskólasetrinu.
Námsframboðið er að vanda fjölbreytt og spannar hefðbundna bekkjarkennslu yfir í óhefðbundnari kennsluaðferðir svo sem kórsöng, búðarall, blótsyrði og kvikmyndasýningar.
Námskeiðin standa yfir til 19. ágúst og flestir nemendurnir munu ferðast aftur til Reykjavíkur þann 20. ágúst. Nokkrir nemendur munu þó dvelja ögn lengur á Vestfjörðum og skoða sig um enda lítill tími til þess í þéttri dagskrá námskeiðanna. Enn aðrir nemendur munu svo dvelja á Ísafirði næsta vetur og stunda meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun.