mánudagur 23. maí 2022

Íslenskuátakinu „Íslenskuvænt samfélag“ ýtt úr vör

Kæru Vestfirðingar og aðrir landsmenn.

Þessari grein er aðallega beint til Vestfirðinga eða þeirra sem búa á Vestfjörðum. Auðvitað mega samt allir aðrir taka hana til sín.

Vestfirðir og þá ekki síst Ísafjörður hafa fengið það orðspor á sig að hér sé gott að spreyta sig á íslensku sé maður að læra málið. Frá árinu 2007 hefur Háskólasetur Vestfjarða staðið fyrir íslenskunámskeiðum, aðallega í ágúst, fyrir stúdenta og aðra sem vilja læra málið. Mikil ánægja hefur verið meðal nemenda, sem flestir bera Ísafirði og Vestfjörðum vel söguna og vilja meina að hér sé vel tekið á móti þeim sem ekki beita tungunni kórrétt. Hér fá nemendurnir tækifæri til að nota málið á meðan þeir eru að læra það.

Það er og vitað mál að tungumál verður seint lært nema því sé beitt. Þar af leiðandi er mikilvægt fyrir þá sem eru að læra íslensku að við þá sé töluð íslenska. Oft er þetta spurning um tíma, skilvirkni og nennu. Fólk er á þönum og leitar til þess sem einfaldara er. Það vill nefnilega brenna við að fólk grípi til enskunnar og það jafnvel þótt viðmælandinn sé ágætlega fær um að tjá sig á íslensku.

Átakið sem hér er kynnt til sögunnar og ber heitið  Íslenskuvænt samfélag: við erum öll almannakennarar er sumpart til að sporna gegn þessari tilhneigingu. Aðaláherslan er lögð á þá staðreynd að öllum ætti að vera í lófa lagið að veita liðsinni er kemur að því nema tunguna. Til þess þarf fólk ekki að vera sérfræðimenntað á því sviðinu.

Hér fyrir vestan kann þetta að hljóma eins og leitast sé við að sannfæra sanntrúaða (og þó). Sjaldan er góð vísa of oft kveðin. Og hver veit svo nema þessar hugmyndir hljóti brautargengi fyrir sunnan, þar sem enskan er hugsanlega meira ríkjandi í samskiptum fólks, svo og í fleiri landshlutum.

Allt frá því að Háskólasetrið hóf íslenskunámskeið sín árið 2007 hefur þessum tilmælum verið haldið að fólki hér fyrir vestan og þess farið á leit við fólk að mæla á íslensku við erlenda nema þegar þeir leitast við að nota íslenskuna.

Segja má að þetta átak hafi því verið í gangi í ágústmánuði á Ísafirði undanfarin 15 ár þegar. Skrifaðar hafa verið greinar þar að lútandi eða þá talað beint við aðila innan Ísafjarðarbæjar, einkum hjá fyrirtækjum og stofnunum. Í fyrra var svo staðið að áþekku átaki og nú stendur til nema hvað þá var nafngiftin Íslenskuvænn staður og einskorðaðist við ágústmánuð og hluta september og var mestmegnis í tengslum við íslenskunámskeið Háskólaseturs.

Á þessu byggir átakið sem nú er hleypt af stokkunum með dagskrá sem stendur fram í nóvember. Helsti munurinn er sá að hér er fremur horft til þess sem almannakennari getur tileinkað sér fremur en sá sem lærir málið.

Er því ekki úr vegi að útskýra lítillega hvað við er átt með orðinu almannakennari. Orðið felur það fyrst og síðast í sér að allir sem hafa málið að móðurmáli eða tala það sómasamlega geti án þess að skipta yfir á ensku gert sig skiljanlega á íslensku gagnvart þeim sem málið læra og einnig gagnvart þeim sem ekki kunna stafkrók í málinu. Orðið er að sjálfsögðu fengið úr áeggjaninni Við erum öll almannavarnir. Þannig má og líta á málið gagnvart íslenskunni; ef við viljum að hér verði íslenska áfram töluð þurfum við að leggja okkar lóð á vogarskálarnar. Er sums sé áætlað standa að uppákomum og námskeiðum sem styrkja  og hvetja fólk í þessum efnum.

Dagskráin er enn í mótun og ætla má að við hana bætist viðburðir þegar á líður. Einnig hvetjum við fólk til að hafa samband við okkur ef það vill taka þátt á einhvern hátt eða koma með ábendingar: islenska(hjá)uw.is.  

Maí:

Við ætlum að byrja á málstofu sem, haldin verður í Háskólasetrinu 27. maí næstkomandi. Dagskrá málstofunar má nálgast hér.

Málstofan er opin fyrir alla og fer fram í húsnæði Háskólaseturs við Suðurgötu 12 á Ísafirði

Júní:

Staðið verður að framlínunámskeiði (fólk í þjónustustöfum) í samstarfi við Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Verður um tvö skipti að ræða. Námskeiðin taka á því hvernig best er að standa að því að vera almannakennari. Samhliða yrði staðið að námskeiði fyrir framlínufólk sem er ef til vill hefur ekki full tök á íslensku. Þessu tvennu verður  tvinnað saman.

Júlí:      

Stefnt er á að framleiða boli með áletrun sem á hvetja fólk til að spreyta sig á því að tala Íslensku. Þeir bolir yrðu að vissu leyti til höfuðs bolunum með áletruninni „Ég tala ekki íslensku“. Hugsanlega verða einnig framleiddir fánar og barmmerki. Auk þess verður komið upp veggspjöldum hjá þeim sem það vilja; á stöðum sem vilja vera hluti af átakinu, vilja vera íslenskuvænn staður. En hér átt við fyrirtæki og stofnanir en auðvitað er öllum frjálst að vera með og hvetjum við sem flesta til þess. Þátttaka felur ekkert annað í sér en að á viðkomandi stað sé hægt að ganga að því sem vísu að fólk fái að tala íslensku, fái að spreyta sig í notkun málsins og sé ekki ávarpað á ensku. Hér þarf almannakennarinn vissulega að taka mið af getu þess sem leitast við að tala málið. Í þessu felst því ákveðin skuldbinding.

Ágúst:  

Í þessum mánuði verður mikið um að vera vegna íslenskunámskeiða Háskólaseturs og Tungumálatöfra. Verður enginn hörgull á uppákomum eins og bingókveldi og hraðíslensku. Hraðíslenska lýtur t.d. sömu lögmálum, eða svipuðum og „speed dating“.

September:      

Verður haldin skóladagur og veitingadagur. Nánari útfærsla verður auglýst síðar en hér verður meðal annars skoðað hvernig mætti koma til móts við fólk sem á börn í skólum og hefur íslensku ekki að móðurmáli. Með veitingadegi yrði horft til eldamennsku á sem fjölbreyttastan hátt.

Október:           

Hér verður mestmegnis brugðið á leik með hraðíslensku, leikjakvöldi, bingó og fleira í þeim dúr.

Nóvember:       

Stefnt er á að standa að safnaferðum á einfaldri íslensku, bjóða upp á heimsóknir á valda staði hvar eingöngu yrði töluð íslenska en þá með einfaldara sniði en oft vill verða.

Hafa ber í huga að átakinu Íslenskuvænt samfélag er fyrst og síðast hugsað til að auk meðvitund gagnvart málinu, að fólk sé almennt meðvitað um það að íslenska verður ekki lærð nema hún sé notuð og að allir geti gert sitt til að stuðla að því að gera því fólki sem lærir málið lífið léttara.

Vonandi verður tekið vel í þetta átak og vonandi sýna sem flestir áhuga á því að vera með.

 

Með ylhýrum kveðjum,

Starfshópur átaksins Íslenskuvænt samfélag.

-Auk þess má hafa samband símleiðis í síma 8920799.


Nemendur á íslenskunámskeiðum hafa m.a. heimsótt Hversdagssafnið á Ísafirði.
Nemendur á íslenskunámskeiðum hafa m.a. heimsótt Hversdagssafnið á Ísafirði.