Íslenskt þjóðardýrlingatal
Jón Karl Helgason sendi á liðnu ári frá sér ritið Ódáinsakur: Helgifesta þjóðardýrlinga, en þar fjallar hann um eðli og hlutverk þjóðardýrlinga og þær aðferðir sem notaðar eru til að rækta minningu þeirra á opinberum vettvangi. Í fyrirlestri sínum í Vísindaporti mun hann gera samanburð á stöðu og hlutverki Jóns Sigurðssonar og Jónasar Hallgrímssonar sem þjóðardýrlinga og varpa ljósi á það hvernig mynd þeirra hefur verið endurgerð á frímerkjum, seðlum og í eir.
Jón Karl er prófessor við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands en meðal annarra bóka hans eru ritið Hetjan og höfundurinn (1998) og Höfundar Njálu (2001), sem fjalla um viðtökur Íslendingasagna og Ferðalok (2003) sem fjallar um örlög beina Jónasar Hallgrímssonar.
Vísindaportið er öllum opið og hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs.