mánudagur 11. mars 2013

Iðnfræði í fjarnámi

Fimmtudaginn 14. mars mun Vilborg Hrönn Jónudóttir, verkefnisstjóri við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, verða til viðtals í kaffistofu Háskólaseturs milli klukkan 15 og 16. Allir áhugasamir um fjarnám í iðnfærði eru hvattir til að kíkja við og kynna sér námið og námsskipulagið.

Iðnfræði er hagnýtt 90 ECTS eininga nám á háskólastigi sem er eingöngu kennt í fjarnámi með tveimur staðarlotum á önn, ein helgi í senn. Hægt er að velja um tvær leiðir til að ljúka námi í bygginga-, raf- eða véliðnfræði.

Námið er skipulagt þannig að hægt sé að stunda það samhliða vinnu og ljúka því á þremur árum. Einnig er mögulegt að ljúka náminu á 1 1/2 ári.

Námið skiptist í þrjú svið: byggingariðnfræði, véliðnfræði og rafiðnfræði. Til að útskrifast sem iðnfræðingur, sem er lögverndað starfsheiti, þarf nemandi að hafa lokið sveinsprófi í iðngrein á viðkomandi sviði og veitir námið þá rétt til meistarabréfs.