mánudagur 18. apríl 2011

Hvítabirnir á Íslandi og sjálfbær þróun strandbyggða

Í dag og á morgun verða tvær meistaraprófsritgerðir í haf- og strandsvæðastjórnun kynntar við Háskólasetur Vestfjarða. Ritgerðirnar fjalla báðar um íslensk málefni og önnur fjallar um Ísafjörð. Í dag, mánudaginn 18. apríl mun Alex Stubbing kynna ritgerð sína Polar Bears and Iceland: An overview, history and proposed response plan, kynningin fer fram í fundarsal Háskólaseturs (Þróunarseturs) og hefst kl. 16.00. Á morgun þriðjudaginn 19. apríl kynnir Jennifer Brown ritgerð sína Can Sustainable Development Save the Rural Coastal Community? og fer kynning hennar einnig fram kl. 16.00 í fundarsal Háskólaseturs, ritgerð Jennifer fjallar sérstaklega um Ísafjörð. Kynningarnar eru opnar öllum áhugasömum.

 

Polar Bears and Iceland: An overview, history and proposed response plan

Viðbrögð við landgöngu hvítabjarna hafa hingað til falist í því að fella dýrin svo fljótt sem auðið er. Þetta hefur þó sætt gagnrýni og margir spurt hvort hægt sé að bregðast við á annan hátt, til dæmis með því að fanga birni sem ganga á landi á Íslandi. Ennfremur hefur verið spurt hverning slíkt gæti farið fram og hvert senda ætti hina fönguðu birni. Í ritgerð sinni fjallar Alex Stubbing um sögu landganga hvítabjarna á Íslandi og greinir hvernig, hvenær og hversvegna þeir berast hingað. Einnig er sett fram viðbragðsáætlun fyrir slík tilvik. Kostir sem eru kannaðir í því skyni eru m.a. föngun og flutningur dýranna með flugi til austur Grænlands, föngun og flutningur dýra í dýragarð og að lokum lógun og förgun dýranna.

 

Leiðbeinandi verkefnisins er Dr. Hjalti J. Guðmundsson, sviðstjóri hjá Umhverfisstofnun og prófdómari er Dr. Vincent Galucci, prófessor við University of Washington í Seattle í Bandaríkjunum.

 

Can Sustainable Development Save the Rural Coastal Community?
Í ritgerðinni er leitast við að svara því hvort kenningar um sjálfbæra þróun geti nýst til að meta á hvaða stigi sjálfbær þróun hefur náð fram að ganga í strandbyggðum í dreifbýli. Til að meta þetta var þróað matstæki til að kanna framgang sjálfbærrar þróunar strandbyggða í dreifbýli og var Ísafjarðarbær notaður sem dæmi í því skyni.

 

Leiðbeinandi verkefnisins er Dr. Helga Ögmundardóttir og prófdómari er Sigrún María Kristinsdóttir, doktorsnemi í umhverfis og auðlindafræðum við Háskóla Íslands.


Alex Stubbing kynnir meistaraprófsritgerð sína í dag kl. 16.00.
Alex Stubbing kynnir meistaraprófsritgerð sína í dag kl. 16.00.