fimmtudagur 4. október 2007

Hvað gerir iðjuþjálfi?

Harpa Guðmundsdóttir er fyrirlesari vikunnar í Vísindaporti. Harpa er iðjuþjálfi að mennt, útskrifaðist með BS gráðu í iðjuþjálfun frá Háskólanum á Akureyri árið 2003. Hún hefur starfað á Ísafirði síðan, fyrst við Heilbrigðisstofnunina og nú einnig við Vesturafl.

Í fyrirlestrinum mun Harpa fjalla um hvað iðjuþjálfun er og fyrir hverja. Einnig kemur hún til með að tala aðeins um námið sjálft en það er einkar vel við hæfi núna þar sem til stendur að bjóða upp á iðjuþjálfanám í fjarnámi frá Háskólanum á Akureyri í fyrsta sinn haustið 2008. Þeir sem hafa áhuga á að fara í fjarnám í iðjuþjálfun eru því sérstaklega hvattir til að mæta og kynna sér um hvað starfið snýst.

Vísindaportið er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum þar sem einhver segir í stuttu máli, 20-30 mínútur, frá sínum núverandi eða eldri rannsóknum – og svo er orðið laust. Fyrirlesturinn fer fram í kaffisal Háskólasetursins og eru allir velkomnir.