mánudagur 30. júní 2008

Hvað felst í textanum? Og hvernig komum við því til skila í flutningi?

Leiklistahátíðin Act alone hefst á Ísafirði miðvikudaginn 2. júlí og stendur til og með 6. júlí. Meðal þess sem boðið er upp á á hátíðinni er námskeið með Sigurði Skúlasyni leikara um textaflutningi í lausu og bundnu máli. Námskeiðið fer fram í Háskólasetri Vestfjarða fimmtudaginn 3. júlí kl. 13.30 - 16.00 og föstudaginn 4. júlí á sama tíma.


Greining og túlkun texta er mikilvæg öllum leikurum sem og öðrum sem koma fram hvort heldur á bæjarstjórnarfundum eða á þorrablótum. Námskeiðið er því sérlega hagnýtt fyrir alla sem á einn eða annan hátt þurfa að koma frá sér efni í mæltu máli.

Sigurður Skúlason er vel kunnur fyrir leik sinn í sjónvarpi og í kvikmyndum auk þess sem rödd hans er vel kunn í útvarpi.

Óhætt er að segja að Sigurður sé meðal bestu upplesara hér á landi og er því mikill fengur að geta boðið uppá þetta vandaða námskeið á Act alone 2008.


Þátttakendafjöldi á námskeiðinu er miðaður við 15 manns og er því rétt að vera snöggur að skrá sig. Þátttökugjald er 10.000 krónur og skráning fer fram hjá Háskólasetri Vestfjarða í síma 450 3040. Einnig er hægt að senda tölvupóst á netfang Háskólaseturs lara@hsvest.is