miðvikudagur 23. janúar 2008

Hvað er MBA nám?

Gestur Vísindaports vikunnar er Jón Snorri Snorrason forstöðumaður MBA náms Viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands. Í fyrirlestri sínum mun Jón Snorri fjalla um skipulag og áherslur MBA námsins við Háskóla Íslands. Einnig mun hann ræða fyrir hverja MBA námið sé ætlað út frá inntökukröfum og bakgrunni nemenda og hver ávinningur námsins er fyrir nemendur og atvinnulífið.


Jón Snorri er viðskiptafræðingur (cand.oecon) frá Háskóla Íslands og er með meistaragráðu frá Essex háskóla í Bretlandi. Hann er forstöðumaður MBA-náms Háskóla Íslands og hefur 25 ára reynslu af háskólakennslu við Viðskipta- og hagfræðideild skólans og hefur auk þess kennt við Háskólann á Bifröst og í Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur setið í stjórnum fyrirtækja eins og Aco Tæknivals, Eðalfisks, Bílabúð Benna, Sigurplasts og Íslenska Lífeyrissjóðsins, Lyfju og Vátryggingarfélags Íslands (VÍS).

Undanfarin 12 ár hefur Jón Snorri verið framkvæmdastjóri Ölgerðarinnar, B&L bílaumboðs og Öryggismiðstöðvarinnar. Á árunum 1983-1995 starfaði hann á fjármálamarkaði m.a. sem forstöðumaður á fyrirtækjasviði Landsbankans, sem framkvæmdastjóri verðbréfasviðs Kaupþings og aðstoðarframkvæmdastjóri Lýsingar.