fimmtudagur 18. febrúar 2010

Hugmyndaráðuneytið í Vísindaporti

Gestur Vísindaports föstudaginn 19. febrúar er Guðjón Már Guðjónsson, sem löngum var kenndur við tölvufyrirtækið OZ en er nú betur þekktur sem einn af forsprökkum Hugmyndaráðuneytisins. Í erindi sínu í Vísindaporti mun Guðjón einmitti segja frá Hugmyndaráðuneytinu og því starfi sem þar fer fram. Sem fyrr hefst Vísindaportið kl. 12.10 og fer fram í kaffisal Háskólaseturs Vestfjarða.

Hugmyndaráðuneytið er grasrótarráðuneyti og samfélagsverkefni sem byggir á sjálfboðavinnu og tók til starfa í ársbyrjun 2009. Auk þess að vera öflugur vettvangur á netinu stendur Hugmyndaráðuneytið fyrir reglulegum hópfundum þar sem frumkvöðlar, hugsuðir og fagmenn frá ólíkum sviðum atvinnulífsins, háskólunum og stjórnsýslunni, hittast og skiptast á hugmyndum, reynslusögum, hlusta á fyrirlestra, mynda tengsl og veita hver öðrum stuðning til framkvæmda. Áhersla er lögð á jákvæðni og tækifæri.

Guðjón Már hefur verið frumkvöðull á sviði hátækni frá 18 ára aldri þegar hann stofnaði OZ. Síðar var hann var einnig einn af stofnendum Íslandssíma og Industria. Nýlega hlaut Guðjón alþjóðlega viðurkenningu JCI sem einn af tíu framúrskarandi frumkvöðlum, undir 40 ára aldri, sem náð hafa árangri innan nýsköpunar í viðskiptalífinu.