Hugarkort nemenda af Ísafirði
Meistaranemar í Haf- og strandsvæðastjórnun fengu áhugavert verkefni á mánudaginn þar sem þau byrjuðu á því að ganga upp að Naustahvilft, eða í hið svokallaða tröllasæti.

Nemendurnir voru mjög heppnir með veðrið eins og sést á myndunum.

Þau voru heilluð af útsýninu af Ísafirði og svæðinu í kring.

Verkefnið sem nemendurnir fengu var að útbúa hugarkort af Ísafirði þar sem þau áttu að lýsa bænum. Þau áttu einnig að merkja inn vegi, göngustíga og kennileiti.

Svo áttu þau að skissa upp mynd af Ísafirði og merkja inn samgöngupunkta eins og hringtorgið og flugvöllinn.

Námskeiðið sem nemendurnir eru að taka heitir Kenningar og tæki og markmiðið með þessari æfingu var að sjá hversu ólík sjónarhorn fólk er með, sem er kunnátta sem kemur að miklum notum í skipulagsmálum.

Daginn eftir, kynntu nemendurnir teikningarnar sínar af Ísafirði ásamt lýsingum og voru þær vissulega allar mjög ólíkar. Kennileiti sem voru algeng í kynningunum voru Háskólasetrið, sundhöllin, göngustígurinn hjá Fjarðarstræti og Nettó. Áhugavert var að sjá munin á kortunum hjá nemendum sem hafa afnot af bíl en þeirra kort náðu yfirleitt yfir stærra svæði. Ein kynning var þó frábrugðin hinum þar sem nemandi lýsti Ísafirði út frá sjónarhorni tröllsins úr tröllastætinu.
