fimmtudagur 30. janúar 2014

Hrun í þorskstofni fyrir iðnvæddar veiðar

Í Vísindaporti þessa vikuna, 31. janúar, mun Dr. Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands í Bolungarvík fjalla um niðurstöður rannsóknar sem sýnir stofnhrun í þorski við upphaf 16. aldar og áframhaldandi fækkun í stofninum allt fram til okkar tíma.

Rannsóknin hefur mikið fræðilegt gildi, en Guðbjörg er með fyrstu vísindamönnum í veröldinni til að rannsaka með beinum hætti breytingar í dýrastofni yfir svo langt tímabil og tengja við umhverfisbreytingar. Þá hafa niðurstöðurnar umtalsverða þýðingu fyrir fiskveiðistjórnun enda sýna þær að miklar breytingar geta orðið í þorskstofninum á tiltölulega stuttu tímabili, jafnvel án áhrifa iðnvæddra veiða. Niðurstöðurnar sýna stofnhrun í upphafi 16. aldar og áframhaldandi fækkun í stofninum fram á nútíma.

Dr. Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir er líffræðingur með þróunarvistfræði fiska að sérsviði. Hún hefur stundað fjölbreyttar rannsóknir á þessu sviði síðan hún hóf doktorsnám árið 2000. Guðbjörg hóf störf hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum í nóvember 2007 og hefur síðan þá byggt upp rannsóknaverkefni á þróunarvistfræði þorks.

Greint var nýlega frá niðurstöðum rannsóknarinnar í vikunni í vísindatímaritinu Royal Society's

Proceedings B og lesa má um rannsóknina í frétt frá Háskóla Íslands.

Vísindaportið hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs. Allir velkomnir.