fimmtudagur 30. júlí 2009

Hreinsun stranda á norðanverðum Vestfjörðum

Dagana 3.-17. ágúst mun tíu manna hópur Veraldarvina á Vestfjörðum vinna að hreinsunar og rannsóknarverkefni á afmörkuðum strandsvæðum í Dýrafirði, Önundarfirði, Súgandafirði, Bolungarvík og á Hornströndum. Verkefnið er allt í senn, umhverfisátak, samfélagslegur stuðningur og rannsókn. Helstu styrktaraðilar þess eru Háskólasetur Vestfjarða, Björgun ehf. og Hótel Núpur.


Verkefnið miðar að því að ástandsgreina svæðin, t.d. skoða hversu mikið rusl rekur á fjörurnar og hvaðan það kemur, auk þess verða niðurstöðurnar settar í samhengi við rannsóknir á alþjóðavísi. Niðurstöðurnar og mat á ástandinu verða síðan kynntar í lokaskýrslu síðar. Ráðgert er að verkefnið verði árlegt, og þannig safnist upplýsingar um svæðin með tímanum sem munu nýtast til að fylgjast með ástandi strandanna í framtíðinni. Verkefnisstjóri hópsins er Danielle Stollak, meistaranemi í Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða og mun hún setja rannsóknarverkefnin upp og stýra vinnu hópsins.