Hrað-íslenskunámskeið á Dokkunni
Hrað-íslenskunámskeið fór fram á Dokkunni þann 17. Ágúst. Þar fengu nemendur sem tóku þátt í þriggja vikna A1-A2 íslenskunámskeiði við Háskólasetur Vestfjarða að spreyta sig á tungumálinu með íslensku mælandi fólki eða svokölluðum almannakennurum. Mæting var góð og stemmningin ekki síðri. Námskeiðið fór þannig fram að nemendurnir skiptust á að spjalla í þrjár mínútur í senn við hvern og einn almannakennara, en færðu sig síðan um sæti á meðan almannakennararnir sátu kyrrir. Með þessum hætti fengu nemendurnir að tala við marga nýja einstaklinga og áttu mörg fjölbreytt og skemmtileg samtöl.
Hugmyndina af slíku námskeiði fyrir íslenskunema fékk hann Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, umsjónarmaður íslenskunámskeiða hjá Háskólasetri Vestfjarða, þegar einn nemandi hans sagðist vera að fara á hraðstefnumót, eða það sem kallast á ensku „Speed-dating“. Ólafur segist þá hafa hugsað að af hverju væri ekki hægt að halda hraðstefnumót, nema fyrir íslenskunemendur. Hrað-íslenskunámskeiðið var haldið í fyrsta sinn í fyrra og verður vonandi fastur viðburður á Ísafirði hér eftir.