fimmtudagur 18. október 2018

Horft um öxl: Vel heppnuð CoastGIS2018 ráðstefna

Dagana 27.-28. september breyttist Ísafjörður í sannakallaðan ráðstefnubæ þegar alþjóðlega ráðstefnan CoastGIS2018 fór fram. Þótt nú sé liðin rúm vika frá viðburðinum er rétt að rifja upp þessa vel heppnuðu ráðstefnu og um leið koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem gerðu okkur kleift að framkvæma hana.

Háskólasetrinu var boðið að halda ráðstefnuna árið 2017 og þáði það boð þótt ljóst væri að verkefnið væri stórt fyrir stofnun sem að jafnaði hefur aðeins sex til átta fasta starfsmenn. Strax var hafist handa við undirbúning ráðstefnunnar sem er sú stærsta sem Háskólasetrið hefur haldið fram til þessa. Í upphafi var undirbúningur í höndum Birnu Lárusdóttur, fyrrverandi verkefnastjóra en frá áramótunum 2018 tók Astrid Fehling verkefnastjóri við keflinu.

Markmið ráðstefnunnar var að miðla þekkingu, hugmyndum og reynslu af notkun gagna og upplýsingatækni til að öðlast betri þekkingu á stjórnun strandsvæða og auðlindum þeirra. Efni ráðstefnunnar fellur því einkar vel að meistaranámsleiðum Háskólaseturs, Haf- og strandsvæðastjórnun og Sjávarbyggðafræði.

Um 100 þátttakendur voru á ráðstefnunni frá 20 mismunandi löndum Flestir úr heimi vísinda og fræða, stjórnsýslunni og frá atvinnulífinu. Þar af kynntu 53 rannsóknir sínar en meðal þeirra voru 6 fyrrum nemendur í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetrið.

Þátttakendur á ráðstefnunni hlýddu á fjölbreytt erindi, tóku þátt í málstofum, vinnustofum og kynntu sér rannsóknir á plagötum. Einnig var gefið talsvert rými á ráðstefnunni til að gestir gætu stungið saman nefjum og borið saman bækur sínar svo sem í kaffitímum og málsverðum.

Til að halda svona viðamikla ráðstefnu eru góðir samstarfsaðilar nauðsynlegir. Ísafjörður og þorpin hér í kring sýndu og sönnuðu að auðvelt er að halda svo stóran viðburð. Aðstaðan í Edinborgarhúsinu var til fyrirmyndar sem og veitingar Edinborg Bistro. Hótel Ísafjörður sá til þess að allir gestir fengju gistingu við hæfi. Rútufyrirtækið Vestfirskar ævintýraferðir stóð sína plikt og ferjaði gesti til Reykjavíkur að lokinni ráðstefnunni. Gestir nutu leiðsagnar og matar hjá Fisherman á Suðureyri. Fræðslumiðstöð Vestfjarða aðstoðað okkur með því að lána stofur undir kennslu á meðan á ráðstefnnni stóð og ekki má gleyma frábærum ljósmyndum sem þeir félagar Gústi og Ásgeir hjá Gústi Productions tóku á meðna á ráðstefnunni stóð.

Myndir frá degi 1

Myndir frá degi 2


Astrid Fehling átti veg og vanda að framkvæmd ráðstefnunnar.
Astrid Fehling átti veg og vanda að framkvæmd ráðstefnunnar.
1 af 2