þriðjudagur 12. ágúst 2014

Hópur frá Washington-háskóla í heimsókn

Þessa dagana dvelur vettvangsskólahópur á vegum Washington-háskóla við Háskólasetur Vestfjarða. Nemendurnir eyða sumrinu á Íslandi og sitja hér námskeið í hugmyndasögu CHID Iceland: Regeneration: Matter, Myth, and Memory in Iceland. Sambandið milli manns og náttúru er í brennidepli og þá sérstaklega hvernig íslensk menning tengist náttúru og umhverfi. Námskeiðið er þverfaglegt og ýmsar fræðigreinar koma við sögu, meðal annars sagnfræði, stjórnmálahagfræði, mannfræði, landafræði, bókmenntafræði og náttúrufræði. Námið fer fram jafnt í skólastofu sem útivið. Nemendunum er boðið upp á fjölbreytta fyrirlestra, þeir heimsækja söfnin á svæðinu og fara í skoðunar- og vettvangsferðir. Að þessu sinni fá nemendurnir að fylgjast með helgiathöfn að hætti ásatrúarmanna, horfa á leiksýningu um Gísla Súrsson og ganga í fótspor útlagans fræga í Haukadal og Geirþjófsfirði, þeir fá að kynnast frelsishetjunni Jóni Sigurðssyn á Hrafnseyri og bókasafnið á Ísafirði er sótt heim, svo nokkuð sé nefnt.


Er þetta þriðji CHID-hópurinn sem sækir okkur heim en síðast kom hingað hópur sumarið 2012. Dr. Phillip Thurtle er sem fyrr fagstjóri og hefur veg og vanda af námskeiðinu, sem er að jafnaði í boði annað hvert ár. Það er mjög ánægjulegt að hafa fengið að taka á móti Phillip og nemendum hans og er það von okkar að við fáum nýjan hóp í heimsókn að tveimur árum liðnum.