fimmtudagur 21. júní 2012

Hópur frá SIT í heimsókn hjá Háskólasetrinu

Sl mánudag 18. júní mætti í Háskólasetrið hópur á vegum School for International Training (SIT) sem er háskóli í Vermont í Bandaríkjunum. Háskólasetrið er búið að eiga í mjög góðu samstarfi við SIT undanfarin ár og er þetta sjötti hópurinn sem dvelur hjá okkur á jafn mörgum árum.

Þessir nemar sitja hér námsáfanga um endurnýjanlega orkugjafa, Renewable Energy, Technology, and Resource Economics in Iceland sem stendur yfir í u.þ.b. sex vikur. Af þeim dvelja nemendurnir þrjár vikur hér fyrir vestan. Auk þess að fá fyrirlestra og kynningar um orkumál og fara í vettvangsferðir tengdar þessum fræðum sitja þeir tíma í íslensku og fá að kynnast sögu og menningu svæðisins. Meðal annars verður farið í útsýnisferð í eyjuna Vigur og Gísla Sögu Súrssonar verður gerð skil með göngutúr með leiðsögn á söguslóðum og sýningu leikritsins vinsæla. Hópurinn mun einnig fá að sigla með Vésteinni, víkingaskipinu frá Þingeyri.

Til þess að fá tækifæri til að æfa sig í málinu og kynnast betur heimamönnum er nemendunum boðið að gista hjá fjölskyldum á svæðinu í tvær vikur. Þetta er nýjung hér á norðanverðum Vestfjörðum, en vist í heimahúsum hefur áður verið í boði fyrir þessa hópa á Akureyri. Nemendurnir kunna yfirleitt mjög vel að meta að hafa fengið að dvelja hjá fjölskyldu og finnst það standa upp úr.

Hópurinn frá SIT er fyrsti vettvangsskólinn sem heimsækir Háskólasetrið 2012, en von er á tveimur hópum til viðbótar. Vettvangsskóli frá Háskólanum í Washington-fylki (Seattle) er væntanlegur nk sunnudag, 24. júní og leggja þessir nemar stund á hugmyndasögu. Þann 9.júlí kemur svo hópur á vegum íslenskudeildar Háskólans Í Manitoba, Kanada, og er um að ræða árlegan hóp sem einnig hefur verið árlegur gestur undanfarin sex ár.

SIT hópurinn 2012. Á göngu um bæinn rákust nemendurnir á nýveiddan hákarl fyrir utan húsakynni HG við Ásgeirskant.
SIT hópurinn 2012. Á göngu um bæinn rákust nemendurnir á nýveiddan hákarl fyrir utan húsakynni HG við Ásgeirskant.