föstudagur 6. júní 2014

Hlutverkaleikur í strandsvæðastjórnun

[mynd 1 h]Nú stendur yfir síðasta skyldunámskeið námsársins í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun. Námskeiðið er í formi vinnustofu þar sem nemendur fást við ýmis viðfangsefni sem snúa að samþættri strandsvæðastjórnun og þarfnast úrlausna.


Stærsta verkefni námskeiðsins fólst í viðamiklum hlutverkaleik þar sem nemendur nutu m.a. liðsinnis sex útskrifaðra nemenda sem brugðu sér í ýmis hlutverk hagsmunaaðila. Meðal þeirra sem tóku þátt var Gísli Halldór Halldórsson sem útskrifaðist úr náminu árið 2010 með fyrsta útskriftarhópnum. Gísli er nú verðandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Það þótti því við hæfi að hann brygði sér í hlutverk bæjarstjóra í hlutverkaleiknum. Eins og vera ber var hlutverkaleikurinn tekin mjög alvarlega og að sögn Gísla reyndi á alla hans diplómatísku hæfileika í samningaviðræðum við nemendur sem voru í hlutverkum hagsmunaaðila og fulltrúa hins opinbera.


Námskeiðið, sem er sjálfstætt framhald af inngangsnámskeiði í samþættri strandsvæðastjórnun sem fram fór í haust, tekur til praktískra þátta sem nemendur munu vonandi kynnast í störfum sínum í framtíðinni. Sérstök áhersla er lögð á að kynna nemendum áherslur samþættrar strandsvæðastjórnunar beggja vegna Atlantshafs. Í inngangsnámskeiðinu í haust var áhersla lögð á Norður Ameríku en í þessum hluta var Evrópa í forgrunni.


[mynd 2 h]Tveir kennarar hafa umsjón með kennslu vinnustofunnar og eru þeir báðir nýir í kennaraliði Háskólaseturs. Anne Mette er þýskur sérfræðingur sem starfar hjá hinum alþjóðlega KMGNE skóla í Berlín en hún hefur sérhæft sig í samskiptum við hagsmunaaðila í tengslum við brýnustu umhverfismál samtímans. Zoi I. Konstantinou, doktor í sjávarvistfræði, er sjálfstætt starfandi vísindamaður og hefur stundað rannsóknir á sviði samþættrar strandsvæðastjórnunar um ára bil. Báðar gegndu þær veigamiklu hlutverki í SPICOSA fjölþjóðaverkefninu sem er stærsta evrópska ICZM verkefnið til þessa.