miðvikudagur 1. apríl 2009

Hlutverk sveitarstjórna eftir náttúruhamfarir og önnur samfélagsleg áföll

Í Vísindaporti föstudaginn 3. apríl kl. 12.10 mun Herdís Sigurjónsdóttir kynna niðurstöður rannsóknar sinnar um hlutverk sveitastjórna eftir náttúruhamfarir og önnur samfélagsleg áföll. Athugið að Vísindaportið er háð því að flug falli ekki niður á föstudag.

Sveitarfélögin gegna lykil hlutverki í samfélaginu og sinna stórum hluta opinberrar þjónustu við íbúana. Eftir hamfarir eins og jarðskjálfta eða snjóflóð bregst kerfi almannavarna við og fjöldi ólíkra viðbragðsaðila starfar á áfallasvæðinu. Leit og björgun og aðhlynning slasaðra hefur forgang. Meðan hjálparlið er að störfum á slysavettvangi, sinnir sveitarfélagið margs konar þjónustu við þolendur s.s. hreinsun og viðgerðum, húsnæðisaðstoð og annarri félagslegri aðstoð og ráðgjöf, eftir eðli áfallsins.

Rannsóknin beindist að stjórnsýslu sveitarfélaga og viðbrögðum vegna náttúruhamfara og annarra samfélagslegra áfalla. Gerð var greining á skipulagi almannavarna, m.a. lögum, viðbragðsáætlunum og verkferlum. Jafnframt var raunverulegt hlutverk sveitarfélaga greint eftir jarðskjálftann 29. maí 2008, en höfundur starfaði á vettvangi og nýttist sú reynsla í verkefninu. Aðferðum verkefnisstjórnar og gæðastjórnunar var beitt við alla þætti verkefnisins og notaði höfundur m.a.hugkort við greiningu og framsetningu niðurstaðna.

Niðurstaðan sýnir að starfsemi sveitarfélaga er í raun ekki hluti af skipulagi almannavarna, nema hvað almannavarnanefndir varðar. Almannavarnanefndir eru skipaðar af sveitarstjórnum og eru lögum samkvæmt ábyrgar fyrir gerð viðbragðsáætlana, sem fyrst og fremst lúta að stjórnun og samhæfingu við leit og björgun á fólki og allra fyrstu viðbrögðum. Þær áætlanir ná ekki til starfsemi sveitarfélaga og nærþjónustu sem þau veita þolendum eftir náttúruhamfarir og önnur áföll.

Lagagreiningin var jafnframt hluti af rannsóknarverkefninu „Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum (LVN)", sem sveitarfélagið Ísafjörður var þátttakandi í. Lokaafurð þess verkefnisins voru leiðbeiningar fyrir starfsmenn sveitarfélaga um viðbrögð í kjölfar náttúruhamfara, sem þegar hafa verið nýttar af sveitarfélögum á Suðurlandi.

 

Herdís Sigurjónsdóttir lauk MS prófi í umhverfis- og auðlindafræðum í febrúar slíðastliðnum og er doktorsnemi í opinberri stjórnsýslu og áfallastjórnun við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Herdís hóf nýverið störf hjá Verkfræðistofu VSÓ en starfaði áður hjá Rauða krossi Íslands í áratug sem verkefnisstjóri í neyðarvörnum og neyðaraðstoð. Hún hefur jafnframt verið bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ frá 1998 og er nú formaður bæjarráðs, fræðslunefndar, stjórnar Sorpu bs. og samstarfstarfshóps sem stofnaður var í Mosfellsbæ í október 2008 vegna breyttra aðstæðna í efnahagsmálum þjóðarinnar.