miðvikudagur 29. janúar 2014

Hlaut verðlaun fyrir plakat á Arctic Frontiers

[mynd 1 h]Ráðstefnan Arctic Frontiers fór fram dagana 19.-24. janúar 2014 í Tromsö og sóttu hana um 1000 manns víðs vegar úr heiminum. Fagstjóri námsbrautarinnar, Dagný Arnarsdóttir, sótti hana fyrir hönd Háskólasetursins. Tveir Íslendingar, utanríkisráðherra og fulltrúi Landhelgisgæslunnar, fluttu erindi á ráðstefnunni, en ræðumenn voru á annað hundrað.

Á ráðstefnunni var lögð áhersla á upprennandi fræðimenn á sviði norðurslóðarannsókna og var meðan annars keppt um besta plakatið þeirra á meðal. Verðlaun voru veitt af fulltrúa APECS, samtaka ungra vísindamanna í norðurslóðarannsóknum. Skemmst er frá því að segja að Caroline Coch, fyrrum skiptinemi hjá Háskólasetri Vestfjarða, vann til verðlauna fyrir plakatið Effects of Cruise Ship Tourism on the Remote Town of Ísafjörður, Iceland. Caroline var hér í skiptinámi frá Háskólanum í Jena, Þýskalandi, og var á lokaári sínu í grunnámi. Hún stundar nú meistaranám í Háskólanum í Stokkhólmi. 

Þess má geta að William Davies, útskriftarnemandi frá 2012, sótti einnig ráðstefnuna en hann er nú í doktorsnámi við Háskólann Í Leeds.

[mynd 2 h]Loks var einn aðalræðumanna ráðstefnunnar dr. Pernilla Carlsson frá Háskólasetrinu á Svalbarða, en hún mun kenna námskeiðið Pollution in the Coastal and Marine Environments ásamt Morgane P. Maheo frá Háskóla Íslands. 

Háskólasetrið þakkar Caroline fyrir plakatið sem hún kaus að færa okkur að gjöf að ráðstefnu lokinni, og óskar henni innilega til hamingju með verðlaunin.

Plakatið er nú til sýnis í afgreiðslu Háskólaseturs.