miðvikudagur 24. mars 2010

Hið villta norður í Vísindaporti

Í Vísindaporti föstudaginn 26. mars mun Ester Rut Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Melrakkaseturs í Súðavík, kynna samnorræna verkefnið Hið villta norður (e. The Wild North). Verkefnið snýst um þróun sjálfbærrar náttúrulífsferðamennsku á norðurslóðum og koma þátttakendur þess frá norður Noregi, Grænlandi, Færeyjum og Íslandi.

Líkt og fyrr fer Vísindaportið fram í kaffisal Háskólaseturs. Það hefst klukkan 12.10 og er opið öllum áhugasömum.

Nánar um verkefnið:

Yfirmarkmið verkefnisins (TWN) er að stuðla að sjálfbærri þróun náttúrulífstengdrar ferðaþjónustu og tryggja með því undirstöður greinarinnar, afkomu þeirra sem í henni vinna og varðveislu náttúruauðlinda til lengri tíma. Þátttakendur eru ferðaþjónustufyrirtæki sem sérhæfa sig í náttúrulífstengdri ferðaþjónustu, rannsóknastofnanir og opinberir aðilar. Á Vestfjörðum eru þátttakendur, auk Melrakkaseturs, Rannsókna- og fræðasetur HÍ og Náttúrustofa Vestfjarða í Bolungarvík og Vesturferðir og Borea Adventures á Ísafirði.

Á öllum starfssvæðum TWN fara fram rannsóknir þar sem leitast er við að meta þau áhrif sem aukinn fjöldi ferðamanna hefur á dýrin og reynt að leita leiða til að lágmarka þau áhrif. Jafnframt því að hámarka aðgang ferðaþjóna að dýrunum.

Haldin eru námskeið árlega, sem eru sérstaklega miðuð að þörfum ferðaþjónustufyrirtækja og annarra hagsmunaaðila náttúrulífstengdrar ferðaþjónustu. Miðað er við að námskeiðin séu hagnýt og að þau séu opin aðilum á því svæði sem heldur námskeiðið hverju sinni, þó þeir séu ekki þátttakendur í verkefninu.

Niðurstöður rannsóknanna og raunreynsla þátttakenda verða notaðar til þess að útbúa "Wild North code of conduct" (WNCC) fyrir ferðaþjónustuaðila og gesti á TWN svæðinu. Slík vottunarkerfi eru mikið notuð erlendis og gera milljónir viðskiptavina náttúrulífsferða æ meiri kröfu á eitthvað slíkt þegar þeir bóka ferðir sínar. Vottunarkerfið verður helsta afurð og söluvara verkefnisins og munu ferðaþjónustuaðilar sækjast eftir því að vá slíka vottun til að auka gildi starfsemi sinnar og fá fleiri gesti. Markmiðið er að Wild North verði þekkt og virt vörumerki / vottunarmerki á Norðurslóðum.

Á hverjum áfangastað er áætlað að fólki gefist kostur á að taka þátt í rannsóknarstarfi og leggja þar með sitt af mörkum. Ferðaskipuleggjendur taka þátt í að þróa slíka pakka. Áhersla verður lögð á að auglýsa starfsemi aðila sem hafa sjálfbærni að leiðarljósi.