Heimsókn frá Franklin-háskóla
Í morgun mætti í Háskólasetrið hópur nemenda á vegum Franklin-háskóla, sem er bandarískur háskóli með aðsetur í Sviss. Þetta er í annað sinn sem Háskólasetrið tekur á móti hópi frá þessum háskóla. Vettvangsskólar heimsækja Háskólasetrið að jafnaði yfir sumartímann þannig að það er frekar óvenjulegt, en jafnframt mjög ánægjulegt, að fá þessa gesti núna í október. Ferðin er í raun námskeið í umhverfisfræði "Understanding Environmental Issues: Iceland", þar sem íslenskar aðstæður eru notaðar sem dæmi í kennslunni.
Nemendurnir dvelja í fjóra daga á Vestfjörðum og er dagskrá þeirra nokkuð ítarleg. Meðal annars verðum þeim boðið upp á fyrirlestra tengda viðfangsefninu og Vestfjörðum, þeir fá kynningar frá Orkubúi Vestfjarða, Ísafjarðarbæ auk þess sem þeir fá fræðslu um ýmsa fleti ferðamála á svæðinu. Farið verður í heimsókn á Suðureyri þar sem Íslandssaga verður heimsótt og almennt skoðað hvernig unnið er að sjálfbærni í þorpinu. Hópurinn fær einnig kynningu á ásatrú og fornum hefðum í Arnardal.
Fyrir hópnum fer líkt og síðast Dr. Brack Hale. Auk þess að hafa brennandi áhuga á umhverfismálum er Brack mikill Íslandsvinur og hefur hann t.d. verið duglegur að sækja íslenskunámskeið á vegum Háskólaseturs undanfarin ár. Háskólasetrið býður Brack og hópinn hans kærlega velkomin til Ísafjarðar!