miðvikudagur 16. september 2009

Heimsókn frá APECS og Arctic Portal

Síðastliðinn mánudag gafst meistaranemum í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetrið kostur á að hitta Dr. Jenny Baseman, framkvæmdastjóra Association of Polar Early Career Scientists, og Sigmar Arnarson, starfsmann Arctic Polar verkefnisins. Bæði APECS og Arctic Portal veita nemendum margvísleg tengsl við vísindamenn um heim allan.

Dr. Jenny Baseman, kynnti ýmsa möguleika sem APECS veitir vísindamönnum og framhaldsnemum sem eru að feta sín fyrstu skref. Samtökin veita öflugt samstarfsnet og góð tengsl við unga kollega og þekkta vísindamenn á ólíkum sviðum. Við hvetjum alla unga vísindamenn, framhaldsnema og aðra sem hafa áhuga á málefnum Norður Heimskautasvæðisins að ganga í þessi öflugu og skemmtilegu samtök. Frekari upplýsingar um samtökin má finna á heimasíðunni www.apecs.is.

Sigmar Arnarson kynnti Arctic Portal verkefnið sem er afar metnaðarfullt og miðar að því að safna saman á einn stað öllum upplýsingum er varða Norður heimskautasvæðið og gera þær aðgengilegar á einum stað. Sem dæmi má nefna kortagagnagrunn sem getur verið afar gagnlegur fyrir nemendur og vísindamenn sem fást við málefni norðursins. Allar frekari upplýsingar um Arctic Portal má nálgast á heimasíðunni www.arcticportal.org.